149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:41]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað er það óboðlegt að í máli sem þessu skulu menn ekki treysta sér til að koma og svara rökum. En eftir að hafa hlustað á ræður hv. þm. Jóns Þórs Þorvaldssonar er ég ekki viss um að það sæti furðu, því að hv. þingmaður hefur rökstutt mál sitt það vel, einfaldlega með því að vísa í reglugerðirnar sjálfar og draga af þeim ályktanir, að ég er ekkert hissa á því að menn veigri sér við að svara áskorun hans og koma hér og sannreyna eins og hann bauð mönnum upp á að prufa, að sannreyna að hann sé að fara með rangt mál. Ég á mjög erfitt með að sjá að menn gætu það yfir höfuð. Þá þykir þeim betra að fela sig hér í einhverjum hliðarherbergjum, eða eins og í flestum tilvikum vera einhvers staðar allt annars staðar, úti á palli heima hjá sér eins og þingmenn jafnvel auglýsa á samfélagsmiðlum, því að þeir óttast að þeir færu ekkert sérstaklega vel út úr því að þurfa að svara rökum hv. þingmanns.

En þá myndi ég biðja um að í staðinn kæmu þeir og veittu okkur aðrar skýringar en þeir hafa veitt til þessa á því hvers vegna samþykkja eigi þetta þrátt fyrir þær staðreyndir sem hv. þingmaður hefur kynnt og menn virðast ekki treysta sér til að hrekja. En gallinn er bara sá að líklega hafa þeir ekki þær ástæður ekki heldur.

Ég er farinn að óttast að stjórnarmeirihlutinn hér og fylgifiskar þeirra viti ekki almennilega hvers vegna þeir vilja innleiða þennan þriðja orkupakka, það sé bara búið að ákveða að gera það, að halda þingflokksfundi, nú verði bara allir að greiða atkvæði með þessum hætti (Forseti hringir.) og þar við sitji.