149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:52]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég efast ekki um að forseti er sammála mér um það að sú afstaða sem hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson lýsti hér áðan er lofsverð. Ég er sammála hv. þingmanni um það og ekki ætla ég að gagnrýna hann fyrir það. Það er tilefni til að gefa mönnum tækifæri til að sannfæra okkur. Ekki hvað síst þegar um er að ræða menn sem hafa lýst jafnvel sömu áhyggjum að nokkru leyti og við höfum verið að lýsa af þriðja orkupakkanum en hefur svo skyndilega snúist hugur.

Þá væri fengur að því fyrir okkur að fá að vita hvers vegna, svo að við getum metið það sjálf hvort það séu ástæður sem gefi okkur tilefni til þess að endurskoða afstöðu okkar. Það væri verra fyrir okkur að þurfa að fara í atkvæðagreiðslu án þess að hafa verið upplýst um hvað það var sem olli sinnaskiptum hjá öðrum þingmönnum. Það sem ég óttast er að ástæðan fyrir því að menn komi ekki hingað og útskýra þetta fyrir okkur og færi fram sín rök, svari þeim rökum sem við höfum teflt fram hér í nokkrum ræðum — ég óttast að það sé vegna þess að menn hafa ekki sannfæringu fyrir nýju afstöðunni.

Þá spyr ég hv. þingmann: Hvað getum við gert til að hjálpa þessum hv. þingmönnum? Ef þessi er raunin, hvað getum við gert til að hjálpa þeim til þess að gera það sem þá langar raunverulega að gera og fylgja þeirri afstöðu sem þeir hafa jafnvel lýst og rökstutt vel og hlýtur þar af leiðandi að langa að fylgja? Hvernig getum við aðstoðað það fólk við að leyfa afstöðu sinni að njóta sín? Eru menn hræddir við eitthvað sem við getum aðstoðað þá við að ryðja úr vegi? Hefur hv. þingmaður hugmyndir um það hvernig við getum komið að liði?