149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:19]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni andsvarið. Já, ég get alveg ímyndað mér að álitsgerð sérfræðinganna Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts hafi verið ríkisstjórninni allnokkurt áfall, hið minnsta, og þær leiðir sem lagðar eru til. Önnur er — ég er ekki með álitsgerðina með mér í pontu, en það er alveg ljóst hver hugur skýrsluhöfunda er hvað varðar það að vísa málinu til sameiginlegu EES-nefndarinnar, það er sá kostur sem sérfræðingunum hugnast best.

En síðan er það auðvitað sérstakt áhyggjuefni og hlýtur að hafa vakið umhugsun og umræðu innan ríkisstjórnarinnar, a.m.k. innan utanríkisráðuneytisins, þ.e. það atriði sem snýr að því að fyrst og fremst sé verið að fresta stjórnskipulegu álitaefnunum með því að fara þá leið sem ríkisstjórnin velur á endanum að fara, að þeim sé í rauninni frestað þar til að lagningu sæstrengs kemur. Þá verður nú úr vöndu að ráða fyrir okkur þingmenn þegar búið verður að innleiða reglugerðir 713 og 714 og menn standa fyrir því sem orðnum hlut og þurfa þá að taka umræður um mögulega lagningu sæstrengs út frá því sem setur málið allt í sérstakt samhengi.

En eins og ég segi, ég tel að skynsamlegt væri að klára þessi álitaefni hér og nú er snúa að stjórnskipulegu álitaefnunum. Það hefur svo sem legið fyrir í umræðunni að afstaða mín er sú að menn ættu að fara að ráðum (Forseti hringir.) sérfræðinganna og vísa málinu til sameiginlegu EES-nefndarinnar.