150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.

843. mál
[14:25]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég fagna frumvarpinu, þessum 500 milljónum til viðbótar í nýsköpun. Það er nákvæmlega það sem við þurfum að gera til þess að halda lífi í þeim geira og undirbyggja vöxtinn í framtíðinni. Á endanum byggist hagvöxtur til lengri tíma á nýsköpun.

Það er eitt sem ég vildi vekja athygli á og spyrja hæstv. ráðherra út í: Í dag er ferlið þannig að skv. 5. gr. tekur stjórn Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins ákvarðanir um þátttöku sjóðsins í fjárfestingum, veitingu lána og ábyrgða auk ákvarðana um tryggingar og kjör. Mér sýnist það ferli vera að breyta málum þegar kemur að þessum 500 milljónum, eins og segir í 1. gr., með leyfi forseta:

„Ráðherra er heimilt að semja við Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins um framkvæmd mótframlagslána til sprota- og nýsköpunarfyrirtækja gegn framlagi fjárfesta til viðkomandi fyrirtækja, sem veitt verða til rekstrarfjármögnunar á árinu 2020. Í slíkum samningi skal m.a. kveðið á um skilyrði, kjör, afgreiðslu og meðferð mótframlagslána.“

Í dag eru ákveðin ferli til staðar um það hvernig það er gert og hver skilyrðin eru. Þarna býr ráðherra til einhver ný skilyrði. Ráðherra stendur frammi fyrir ákveðnum freistnivanda, það er hægt að sníða þau skilyrði að ákveðnum fyrirtækjum þannig að þau henti betur fyrir eitt fyrirtæki fremur en annað. Við þekkjum það vel að hægt er að sníða svona skilyrði að ákveðnum hlutum. Það er freistnivandi sem hægt væri að komast fram hjá. Svo er skipuð ný stjórn sem ég tala aðeins um á eftir. En varðandi skilyrðin: Hvers vegna er ekki bara hægt að hafa þau inni, þau skilyrði sem þegar eru til staðar? Hvernig hugsar ráðherra það? Og hvernig gæti hún hugsað sér að hægt væri að komast fram hjá freistnivandanum, þ.e. að ráðherra (Forseti hringir.) gæti farið að sníða þetta eftir öðrum stakki en best væri fyrir nýsköpun?