151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

stjórnarskrárbreytingar.

[13:11]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp til að eiga gott samtal við hæstv. forsætisráðherra, sem ég ætla núna að ávarpa sem formann Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, af því að við unnum í stórum dráttum saman að stjórnarskrárbreytingum þar sem við komum saman sem formenn stjórnmálaflokkanna. Núna liggur fyrir að það er eitt mál inni í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Ég ætla ekki að dvelja við þau mistök sem ég held að formaður Vinstri grænna hafi gert, að hafa sameinað málin fjögur í eitt mál, því að nú stöndum við frammi fyrir því að þingi er að ljúka og við sjáum fyrir endann á ákveðnum málum en ekki samt stjórnarskránni og þeim breytingum sem þar hafa verið lagðar fyrir.

Ég vil ítreka að Viðreisn hefur einmitt ekki nálgast þetta mál út frá stjórn/stjórnarandstöðu, heldur tekið prinsippákvörðun um að styðja við þær breytingar sem eru skynsamlegar. Ég tel enn, og ætla ekkert að fara í einhverja leiki í stjórnarandstöðu í því sambandi, að það sé skynsamlegt að taka að einhverju leyti stjórnarskrárbreytingar í gegnum þingið og sýna það að þingið getur breytt stjórnarskránni. Ég hefði viljað sjá stærri og meiri skref, það er t.d. ekkert launungarmál að við deildum um jafnt vægi atkvæða. En það var samkomulag um það í upphafi að fjalla næst um það. En þegar rökræðukönnunin sem gerð var sýndi ótvírætt fram á vilja þjóðarinnar til að breyta því fyrirkomulagi hefði ég gjarnan viljað hafa það með. En gott og vel, það varð ekki.

Skilaboð mín til hæstv. ráðherra eru þau að Viðreisn a.m.k. stendur ekki í vegi, að hluta til, fyrir því að þessar breytingar á stjórnarskrá fari í gegnum þingið. Hins vegar er líka meiri hluti fyrir því hjá ríkisstjórninni að ýta áfram auðlindaákvæðinu. Gott og vel. Ef það kemur hingað þá ætla ég líka að segja að ég mun ekki fara í málþóf varðandi það ömurlega ákvæði, heldur einfaldlega láta þjóðina taka afstöðu til þess þegar þar að kemur. En ég vil hvetja hæstv. forsætisráðherra og formann VG til dáða í þessu efni og undirstrika að ég sé ekki að þessi mál, þessi mikilvægu mál, séu föst í nefnd. Ég held að við eigum að reyna að gera allt til þess að taka skref í þessu skyni og afgreiða a.m.k. hluta þeirra.