151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

endurgreiðslur ferðakostnaðar vegna krabbameinsskimana.

[13:47]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra svörin og vona að meira bætist við. Það er ekki ásættanlegt að fólk búsett á landsbyggðinni sé sett í þá stöðu að þurfa að taka ákvarðanir um aðgerðir eða tíðni skimana í ljósi fjárhagsstöðu eða forgangsraða hvaða heilbrigðisþjónusta sé sótt í þeim tveimur ferðum sem Sjúkratryggingar endurgreiða. Einstaklingar sem greindir eru með BRCA-stökkbreytingar þurfa að fara að lágmarki tvær ferðir á ári og þar með er rétturinn til endurgreiðslu tæmdur. Kostnaðurinn vegna ferða í tengslum við aðgerðir getur svo orðið gríðarlegur. Það er hægt að gera ráð fyrir átta til tuttugu ferðum, hálfri til einni milljón í ferðir og þar fyrir utan er dvalarkostnaðurinn. Það er nauðsynlegt að reglur um endurgreiðslu ferðakostnaðar íbúa landsbyggðarinnar séu endurskoðaðar samhliða breytingu á heilbrigðisþjónustunni. Og hvernig getum við tryggt það, hæstv. ráðherra, að regluverkið fylgi?