151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

endurgreiðslur ferðakostnaðar vegna krabbameinsskimana.

[13:48]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Sjúkratryggingar Íslands hafa lagt til breytingar við ráðuneytið á 2. mgr. 3. gr. umræddrar reglugerðar, sérstaklega með það fyrir augum að ná utan um þann hóp sem hv. þingmaður spyr hér um. Ástæðan fyrir því er að orðalag núverandi reglugerðar heimilar aðeins að ítrekaðar ferðir séu greiddar þegar um er að ræða alvarlega sjúkdóma. Það girðir fyrir að SÍ sé í raun heimilt að greiða fyrir fleiri ferðir en tvær á hverju 12 mánaða tímabili þegar um er að ræða meðferð sem ætlað er að koma í veg fyrir illkynja sjúkdóma. Þar ber auðvitað hæst fyrirbyggjandi meðferð einstaklinga með stökkbreytingu í BRCA-geni. Kostnaðarmat vegna þessarar breytingar liggur ekki fyrir en er til skoðunar í ráðuneytinu. Ég geri ekki ráð fyrir því svona fljótt á litið að um verulega kostnaðaraukningu sé að ræða þannig að ég tel líklegt að breyting af þessu tagi verði gerð.