151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

skýrsla um leghálsskimanir o.fl.

[13:58]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Í ljósi þess að það er fram komið núna að skýrsla hæstv. heilbrigðisráðherra um skipulagsbreytingar og framkvæmd á skimun sé væntanleg í þingið á morgun þá fyndist mér eðlilegt að óska eftir því að umræða fari fram hér í þingsal um skýrsluna við hæstv. heilbrigðisráðherra. Þetta mál hefur mallað í umræðunni. Við höfum séð fagfélag eftir fagfélag lækna og heilbrigðisstétta álykta gegn þessum breytingum, lýst yfir áhyggjum sínum og haft upp nokkuð stór og þung orð og þunga gagnrýni í þeim efnum. Ég held að óvissa kvenna og fólks um þessa grundvallarheilbrigðisþjónustu sé með þeim hætti að það fari vel á því að skýrslan sé rædd hér í þingsal og vonandi verði svörin í henni þannig að áhyggjur okkar reynist ástæðulausar.