151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[16:06]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég sagði hér í ræðu á eldhúsdegi í gærkvöldi að viðbrögð ríkisstjórnarinnar í þessum faraldri hefðu á tíðum verið fálmkennd. Hér er eitt dæmi um það. Þetta er fínt mál en á sínum tíma voru menn að framlengja ákveðnar ráðstafanir og gerðu það þannig að ekki dugði til og við þurfum enn að skeyta við. Auðvitað tökum við, eins og við höfum alltaf gert, stjórnarandstaðan hér á þingi í þessu ástandi, undir með ríkisstjórninni og við tökum náttúrlega undir með þeim einstaklingum sem eiga í hlut vegna þess að fólk sem hefur misst eða hefur átt á hættu að missa vinnuna í faraldrinum á náttúrlega stuðning okkar allra. En það breytir ekki því, herra forseti, að vinnubrögðin eru oft og tíðum og hafa verið fálmkennd.

Í þeim ráðstöfunum sem gerðar hafa verið, sérstaklega í atvinnuleysistryggingamálum, hafa orðið til jaðartilvik sem ekki fylgja með. Það sem er kannski vont í þessu máli er að hér er ekki jafnræðis gætt, t.d. meðal félaga sem stunda æskulýðsstarfsemi. Það skýtur skökku við að félagsskapur eins og t.d. KFUM og K skuli ekki njóta sömu réttinda og íþróttafélög.

Það hefur jú komið fram, herra forseti, að t.d. hefur andleg líðan barna og unglinga verið mjög bág í þessum faraldri. Hættan er sú að þau búi áfram við andlegt ójafnvægi eftir að faraldrinum er „lokið“ eða þegar við sjáum út úr þessu mesta kófi sem við höfum verið að berjast við. Börnin eru ekki laus, þau halda áfram að hafa áhyggjur og mikla fyrir sér hlutina, því miður. Þess vegna skýtur skökku við að félagsskapur sem stundar að byggja fólk upp andlega og ekki síður en líkamlega, eins og KFUM og skátarnir líka sem ekki eru heldur hér inni, skuli ekki vera hér með. Þess vegna finnst mér persónulega og okkur mörgum að þar skorti á jafnræði í þessum lögum.

Hitt sem ég ætlaði að minnast á, herra forseti, og minntist á eru jaðartilvik, þ.e. að svo virðist að ekki hafi verið passað nógu vel í þeim aðgerðum sem hafa verið gerðar að undanförnu upp á stöðu einyrkja. Þeir hafa oft setið hjá og ekki notið þeirra aðgerða sem hefur verið gripið til og/eða að aðgerðirnar hafi ekki verið nógu skýrar þannig að þeim hefur reynst erfitt að fá hlustun á sín vandamál. Það er til mikils vansa, herra forseti, vegna þess að það eru jú oft einstaklingar sem hafa ekki í digra sjóði að sækja. Oft hefur þetta verið fólk sem stundar listgreinar eins og tónlist, ljósmyndun o.fl. og hefur náttúrlega orðið fyrir miklum búsifjum í þessum faraldri út af samkomubanni og út af því að eins og margir vita hafa giftingar mikið legið niðri í landinu í rúmt ár þannig að þar er uppsafnaður, ekki vandi heldur uppsöfnuð þörf fyrir að fólk geti gripið í það góða ráð að láta gefa sig saman. En allt þetta hefur stuðlað að því að einyrkjar margir hverjir hafa orðið fyrir búsifjum. Það sem vantar kannski inn í þetta mál er í fyrsta lagi það að gæta jafnræðis og í öðru lagi að gæta að einyrkjum og sérstaklega þeim einyrkjum sem eru í því sem við köllum listgreinar.