151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[17:10]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið. Ég tek algjörlega undir að þessi heimsfaraldur hefur hraðað — vel að orði komist — ferli t.d. í fjarvinnslu og fjarfundabúnaði og þeirri tækni. Við þekkjum það sjálf hér á þinginu að við höfum getað hist á fundum án þess að hittast með því að vera á fjarfundum. Maður sér fyrir sér að það muni breytast á heimsmælikvarða, bara með ferðir og annað slíkt, við getum bara sagt óþarfafundarferðir eitthvert til útlanda, rándýrar, og þar fram eftir götunum.

En það sem ég er kannski líka að velta fyrir mér þegar ég tala um tækifærið sem er núna vegna breyttra tíma — við getum kallað það tímamót, við erum að fjalla um styrki og atvinnuleysisbætur til íþróttafélaga — er að ég hef þá tilfinningu og skoðun að of lítið sé af félagslegum úrræðum og meira af einangruðum úrræðum. Þess vegna nefndi ég að við erum félagsverur, hvort sem okkur líkar betur eða verr, og tilhneigingin til að einangra sig er of rík hjá okkur mörgum. Það eru þessir hvatar til að vera með meiri félagsleg úrræði og halda því við sem getur hvatt fólk til að hittast meira og jafnvel keppa hvert við annað, eða hvernig sem það er. Það sem ég hefði viljað sjá í þessum heimi, sem er að breytast svolítið mikið, er að við viðhöldum þessum félagslegu úrræðum, félagslegu þáttum sem efla félagslegan þroska. Það er það sem ég er að horfa til.