151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[17:46]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir það sem hv. þingmaður segir. Það er vissulega jákvætt og gott fyrir námsmenn að skipta um umhverfi, starfa í umhverfi sem þeir eru ekki alla jafna í, jafnvel fara og búa annars staðar en þeir búa venjulega og reyna á sig með einhverjum öðrum hætti. Þeir læra líka á því. Þeir læra ekki bara ákveðið vinnulag og ákveðin verk, þeir læra líka á samfélagið sem þeir eru í, þeir finna sig í samhengi við samfélagið og finna sig í samhengi við annað fólk. Þess vegna er vinnan holl og það er hollt að finna sig í samfélagi við annað fólk.

Hitt er aftur annað mál að stöðug vinna með námi getur bitnað á náminu með þeim hætti sem ég var að reyna að lýsa í ræðu minni og ég held að það sé mikilvægt verkefni okkar að reyna að takast á við þetta. Ég tel að það sé óeðlilega hátt hlutfall námsmanna sem sinnir einhvers konar vinnu með námi og ég er ekkert viss um að sú vinna, sem er iðulega í einhverjum þjónustugreinum á einhverjum veitingahúsum og þar fram eftir götunum, sé endilega sú sem er mest krefjandi eða þroskandi.