151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[19:01]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Hæstv. forseti. Ég vona að það komi virðulegum forseta á óvart að ég hef ekki enn náð því að verða afreksmaður á íþróttasviðinu. Engu að síður er ég eindreginn stuðningsmaður íþróttaiðkunar og tel starf íþróttafélaga og þeirra sem koma að starfsemi þeirra eitt af því mikilvægasta í okkar samfélagi, svoleiðis að ég er eindregið hlynntur því að stjórnvöld greiði sem mest fyrir slíku starfi.

Ég komst kannski næst því að ná vegtyllum á íþróttasviðinu á námsárunum í Bretlandi þegar mér bauðst, líklega fyrir mistök, að verða formaður krikketklúbbsins á mínum garði, eða svo taldi ég vera, en það reyndist vera krokketklúbburinn, sem er allt önnur íþrótt. Ég hafði séð fyrir mér að það væri skemmtilegt að ná því að verða formaður krikketklúbbs í Bretlandi, þótt ég hvorki kunni né skilji þá íþrótt.

En þrátt fyrir að ég hafi ekki náð árangri á þessu sviði, og verið iðulega, herra forseti, valinn síðastur eða með þeim seinni í liðið í leikfimi í gamla daga, þá hef ég alltaf borið virðingu fyrir þeim sem leggja á sig þá vinnu sem þarf til að ná árangri í íþróttum. Það á ekki hvað síst við um þá sem helga starfskrafta sína því að þjálfa ungmenni og halda utan um félagsstarf íþróttasamtaka, oft og tíðum fyrir ekkert allt of mikil laun. En þetta er fórnfúst og gríðarlega mikilvægt starf svoleiðis að ég er afskaplega ánægður með að menn skuli ætli að koma til móts við það. Og ekki er ég síður ánægður með árangur stjórnarandstöðunnar við að koma því að í þessu máli, eins og nú stefnir í, að þeir sem vinna að því sem verktakar líði ekki fyrir það fyrirkomulag enda er mjög eðlilegt að menn sinni þessum störfum að talsverðu leyti í verktöku.

Hér sjáum við þó að aðkoma stjórnarandstöðunnar gagnvart hinum svokölluðu Covid-málum ríkisstjórnarinnar getur verið til þess fallin að bæta þau mjög. Við höfum séð það í fleiri málum. Auðvitað hefði maður viljað að meiri hlutinn væri reiðubúinn til að taka hreinlega við þeim tillögum sem stjórnarandstaðan hefur í mörgum tilvikum komið með, góðum tillögum, fremur en að fella þær allar í atkvæðagreiðslu. Í þessu tilviki vannst þetta ágætlega í nefndinni og því ber að fagna. Ábendingar stjórnarandstöðunnar voru þess eðlis að það var eiginlega ekki hægt að líta fram hjá því.

En þessi umræða hefur farið að snúast dálítið um aðgerðir í atvinnumálum almennt í þessu ástandi. Það er svo sem eðlilegt að setja þessi úrræði í samhengi við önnur úrræði í atvinnumálum á þessum Covid-tímum. Til að byrja með vil ég taka undir ábendingar þeirra sem hafa nefnt að það sé sérkennilegt að fyrst á annað borð var farið út í þetta, sem ég ítreka að er mjög jákvætt, skyldu menn ekki hafa þetta víðtækara og taka með í reikninginn ýmis æskulýðssamtök og mikilvægt starf þeirra og annað sem er á margan hátt eðlislíkt íþróttastarfinu en fellur utan við ramma þessa frumvarps. Ég held að það væri mikill fengur að því ef við gætum núna í umræðunni útvíkkað þetta úrræði, því að það kemur alls staðar að verulegu gagni.

Mörg þeirra starfa sem orðið hafa til að undanförnu hafa langflest, held ég að megi segja, jafnvel 6.000 af 7.000 nýjum störfum, svo maður grípi eina af þeim tölum sem meiri hlutinn hefur varpað hér fram, verið störf hjá hinu opinbera. Gallinn við það, herra forseti, er sá að störf hjá hinu opinbera skila ríkinu ekki þeim auknu tekjum sem það þarf til að standa undir velferðarkerfinu og rekstri ríkisins almennt. Með því er ekki verið að gera lítið úr opinberum störfum, alls ekki, en hafa þarf hugfast að það þarf störf á almennum markaði til að standa undir fjármögnun starfa hjá ríkinu. Þegar svo mikil skekkja kemur í þetta er það áhyggjuefni og það er áhyggjuefni með hvaða hætti ríkisstjórnin hefur í rauninni dregið úr hvötunum til þess að það skapist ný störf, ný verkefni og ný verðmætasköpun á almenna markaðnum. Það er orðið afskaplega flókið og erfitt að stofna eða reka lítil fyrirtæki á Íslandi þegar verið er að leggja á þau sömu kvaðir og alþjóðleg stórfyrirtæki. En sú er raunin núna að menn geta varla hafið rekstur lítils fyrirtækis á Íslandi án þess að vera með sérfræðinga í vinnu bara við það að fást við kerfið.

Við þurfum líka að velta fyrir okkur hvort sú leið sem ríkisstjórnin hefur farið núna í viðbrögðunum vegna faraldursins sé til þess fallin að skila framtíðarárangri. Er með aðferðum ríkisstjórnarinnar verið að leggja grunn að áframhaldandi uppbyggingu eftir að faraldurinn er hjá liðinn eða eru þetta fyrst og fremst frestunaraðgerðir, deyfilyf, ef svo má segja, fyrir atvinnulífið meðan á vandanum stendur?

Í því sambandi finnst mér rétt að líta á álit sem Samtök ferðaþjónustunnar og Samtök atvinnulífsins sendu sameiginlega til Alþingis vegna þessara mála, vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar. Ég hef ekki heyrt menn vísa beint í það. Ég náði reyndar ekki að heyra alveg alla umræðuna en ég held að það sé vel við hæfi að vitna beint í álitið vegna þess að það gefur okkur ákveðinn umræðugrundvöll og skýrir í hverju vandinn liggur. En í þessu áliti Samtaka ferðaþjónustunnar og Samtaka atvinnulífsins segir, með leyfi forseta:

„Eftirspurn eftir ráðningarstyrkjum hefur verið nokkuð mikil að undanförnu. Ríflega 9.700 störf höfðu verið skráð í átakið Hefjum störf þann 3. júní, flest tengd ferðaþjónustu, en á sama tíma hafði einungis tekist að ráða í um 2.700 störf í gegnum átakið. Þrátt fyrir sögulegt atvinnuleysi virðist því ganga treglega að ráða fólk af atvinnuleysisskrá.

Fjöldi atvinnuleitenda hefur hafnað störfum samkvæmt atvinnurekendum víðs vegar um land eða með öðrum hætti sýnt áhugaleysi á störfum. Hafa atvinnurekendur í einhverjum tilfellum tilkynnt um atvikin og viðkomandi atvinnuleitendur verið felldir af atvinnuleysisskrá. Þetta virðist vera almennur vandi og fjölmörg dæmi frá atvinnurekendum þess efnis, til SA og SAF sem og í fjölmiðlum. SA og SAF hvetja til þess að tilkynnt sé um slík atvik.“

Herra forseti. Orðið hefur dálítil umræða um það hér í umfjöllun um þetta mál að það sé ósanngjarnt að halda því fram að atvinnulaust fólk vilji almennt ekki þiggja vinnu, og ég tek undir það, það væri mjög ósanngjarnt að halda slíku fram. En við hljótum að velta því fyrir okkur hvort við höfum hér búið til það kerfi, það fyrirkomulag, með þeim miklu skerðingum sem eru innbyggðar í kerfið, að hvatarnir séu ekki réttir, að það skorti einfaldlega hvata til vinnu vegna þess að þá mæti menn svo miklum skerðingum af hálfu ríkisins.

Í ljósi þessara skilaboða hljótum við að velta því fyrir okkur hvort ekki sé með einhverjum hætti hægt að búa til meira hvetjandi kerfi, þar með talið meira hvetjandi skattkerfi, því að skattkerfið á Íslandi er alls ekki hvetjandi. Við búum við einhverja hæstu skatta í heimi þegar greiðslur í lífeyrissjóði eru teknar með í reikninginn, eins og eðlilegt er. Þær eru hluti af skattgreiðslum víðast hvar annars staðar. Skattar eru hér mjög háir og kerfið hefur þróast í þá átt að vera letjandi frekar en hvetjandi. En svo komu nokkrir hv. þingmenn með mjög áhugaverða eða öðruvísi, skulum við segja, nálgun á málin, jafnvel að því marki að Guðmundur Andri Thorsson, hv. þingmaður Samfylkingarinnar, fór að tala um að leti væri jákvætt fyrirbæri og reyndi að færa rök fyrir því. Það voru svo sem áhugaverð rök og eflaust rétt að leti getur í sumum tilvikum verið til þess fallin að fá fólk til að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að gera hlutina á hagkvæmari og auðveldari hátt. En við hljótum engu að síður að vilja vera hér með fyrirkomulag og kerfi sem ýtir undir dugnað og verðmætasköpun og refsar a.m.k. ekki þeim sem leggja á sig vinnu við að búa til verðmæti, því að aukin verðmætasköpun er akkúrat það sem samfélagið þarf á að halda.

Við heyrðum hér meira að segja gagnrýni á það sem kallað er vinnusiðferði mótmælenda. Og þrátt fyrir að ég viti að hæstv. forseti, sá sem nú er á forsetastóli, sé mjög strangur hvað varðar notkun útlensku hér í ræðustól, þá verð ég engu að síður að fá að vitna í erlent heiti bókar, af því að hún var skrifuð á þýsku og titillinn var á þýsku; hin sögulega og fræga bók Max Webers, Die protestantische Ethik und der Geist des Kapitalismus. Ef hæstv. forseti gerir ekki athugasemdir við það þá ætla ég að leyfa mér að þýða það sem Vinnusiðferði mótmælenda og andi markaðsstefnunnar. Þessi bók er líklega ein sú áhrifamesta í sögu félagsfræði og lýsir því hvernig vinnusiðferði og menning getur skipt máli og jafnvel skipt öllu máli um framþróun samfélaga og aukna velmegun. Ég er þeirrar skoðunar að vinnusiðferðið sem þar er lýst, og þar með talið vinnusiðferði Íslendinga í gegnum tíðina, hafi reynst okkur mjög vel og verið algjört lykilatriði í uppbyggingu samfélagsins, í uppbyggingu samfélags sem býr oft við mjög erfiðar aðstæður. Fyrir vikið ættu stjórnvöld að setja lög og reglur sem hvetja til þess að þetta jákvæða vinnusiðferði Íslendinga nýtist, hvetja til verðmætasköpunar, framleiðsluvinnu, vegna þess að einungis þannig getum við staðið straum af því sem við teljum mikilvægast, að ríkið fjármagni velferðarkerfi, heilbrigðiskerfi, menntakerfi o.s.frv. Þótt ég fagni þessu máli tvímælalaust þá tel ég rétt að stjórnvöld hugleiði það hvort í framhaldinu megi ekki koma upp kerfi sem er meira hvetjandi.