151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[20:08]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka enn og aftur fyrir þessar spurningar. Vel á minnst, þetta minnir mig á að ég þyrfti eiginlega að fara í aðra ræðu. Hv. þm. Andrés Ingi Jónsson minntist á rafíþróttir sem ég hef sérstakan áhuga á, ekki vegna þess að ég hafi einhverja þekkingu á þeim, alls ekki, en mér finnst þetta svo góð leið fyrir ungmenni, þá tegund ungmenna sem við þekkjum öll sem situr í tölvunni allan daginn og tekur ekki þátt í íþróttastarfi. Þetta er einmitt sá hópur. Með starfsemi rafíþróttafélaga er verið að reyna að fá þetta fólk til að efla sitt félagslega kerfi og taka þátt í þessari iðju, þ.e. einhvers konar tölvuleikjum, koma saman, tala saman um leikinn, áhugamál þeirra, og þjálfa sig upp, ná einhverjum árangri o.s.frv. Út frá þessu verða oft til snillingar í forritun o.s.frv. Mörg af þessum ungmennum hafa náð verulegum árangri í þessu. Þarna er því verið að fara inn á nýjar lendur og auðvitað eigum við að styðja við þetta líka. Sem betur fer eru þessi félög flest innan íþróttahreyfingarinnar, ég veit ekki nákvæmlega hvort þau eru það öll, en auðvitað eigum við að reyna að taka utan um þetta allt saman, ef ég má nota það orðalag. Auðvitað er þarna hópur sem við verðum að sinna.

Ég vil líka nota þetta tækifæri í seinna andsvarinu til að minnast á að ég er afskaplega ánægður að heyra að hv. þm. Anna Kolbrún Árnadóttir sagði í sinni ræðu hér á undan mér frá því að hún ætlaði að leggja fram breytingartillögu við þetta frumvarp í þá veru sem KFUM nefnir í sinni umsögn, þ.e. að bæta inn öðru æskulýðsstarfi, ekki bara íþróttum, þannig að lögaðilar innan vébanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Bandalags íslenskra skáta, KFUM og K á Íslandi og annarra samtaka hafi í nafni íþrótta- og æskulýðsstarfs þjónustusamning við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Bara einfalt.