151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[20:18]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Mig langar í seinni ræðu minni í þessari umræðu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, sem sagt framlengingu á þeim lögum sem voru samþykkt hér sl. desember, að koma aðeins inn á þau sjónarmið sem koma fram í umsögnum um málið þar sem æskulýðsfélög og ýmis önnur sambærileg félög, skátarnir o.fl., sem ekki eru undir hatti þess að vera íþróttafélög, óska eftir að falla undir þessa lausn með svipuðum hætti og íþróttafélögin gera. Þegar málið kom hingað inn fyrst í desember voru auðvitað á því verulegir annmarkar og má segja að mesta orkan hafi farið í að vísa ríkisstjórninni veginn þannig að fram kæmi skilningur á því að verktakagreiðslur ættu að vera meðhöndlaðar með sambærilegum hætti og launagreiðslur félaganna. Það tókst í nefnd að færa það mál til betri vegar þannig að sá þáttur varð alveg ágætur, auðvitað mátti deila um það hlutfall af verktakagreiðslunum sem yrði metið styrkhæft. Mín skoðun var sú að það hefði verið skynsamlegra að horfa til þess að það væri hærra heldur en raunin varð. En það breytir því ekki að meirihlutaflokkarnir tóku rökum sem við fulltrúar stjórnarandstöðunnar settum fram og málið batnaði.

Í því ljósi má auðvitað segja að það sé ekkert óeðlilegt að umsagnir sem nú liggja fyrir um þetta mál beri með sér ákveðna von um að litið verði til sambærilegra sjónarmiða nú eins og gert var þá, þó að ekki sé verið að ræða um skattalega nálgun eða rekstrarlega nálgun heldur meira svona prinsippnálgun gagnvart æskulýðsfélögum. Nú hef ég umsögn KFUM og KFUK hér fyrir framan mig og yfirskriftin dregur ekkert úr því sem um ræðir. Fyrirsögn umsagnar KFUM og KFUK er, með leyfi forseta:

„Einstakt tækifæri til að laga alvarlegan galla og mismunun í lögum 155/2020 um greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar á tímum kórónuveirufaraldurs.“

Þarna er í rauninni verið að nálgast málið á þeim nótum að auðvitað ættu æskulýðsfélög sem þessi að njóta þess, eða eiga kost á því, að fara inn í sama stuðningskerfi og hér er áformað gagnvart íþróttafélögunum.

Þessi umsögn KFUM og KFUK er, eins og við er að búast, sett fram af mikilli kurteisi en jafnframt af mikilli festu og færð fyrir því góð rök að velferðarnefnd Alþingis leiðrétti þetta, eins og segir hér, með leyfi forseta:

„Velferðarnefnd Alþingis hefur núna einstakt tækifæri til að leiðrétta þau mistök sem gerð voru á liðnum vetri við setningu laga nr. 155/2020. Mistök sem sendu mjög slæm skilaboð út í samfélagið, mistök sem eru engum til sóma.“

Þessi ábending er auðvitað þeirrar gerðar að mér hefði þótt sjálfsagt að við, þingheimur og hv. velferðarnefnd, hefðum litið til þessa og í öllu falli gert reka að því að reyna að greina hvaða áhrif þetta hefði og ekki síður hvaða áhrif það hefði á þessa starfsemi sem er jafn mikilvæg og raunin er. Hún er svo fjölþætt að ég ætla ekki að telja upp hin ýmsu form hennar. En það mætti náttúrlega nefna skátafélög landið um kring, KFUM og KFUK, sem sendir inn umsögn, og fleiri. Miðað við tóninn sem berst frá íþróttafélögunum, hvort sem það eru umsagnir Ungmennafélags Íslands eða KSÍ eða annarra, þá hefur þetta, og sérstaklega sú breyting sem var gerð í meðförum velferðarnefndar í desember, að fella verktakagreiðslur undir nokkurn veginn sama hatt og launagreiðslur íþróttafélaga, áhrif á íþróttafélög. Mér þykir miður að það hafi ekki verið gerður reki að því að skoða hvaða áhrif og hvaða stuðningur gæti farið til þessara æskulýðsfélaga og fjölbreyttra félaga á landið um kring fengju þau að njóta þessa sama úrræðis.