151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

fasteignalán til neytenda.

791. mál
[20:49]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Brynjar Níelsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, ég hef alltaf áhyggjur af óhóflegri takmörkun á frelsi fólks. Þetta er örugglega ekki versta frumvarpið sem við höfum lent í með það. Hér vegast á þetta frelsi, þ.e. að fólki beri almennt ábyrgð á því sem það gerir og því sem það leggur á sig og hins vegar það að menn líta svo á að ef fjármálafyrirtæki fara of geyst í þessu geti það haft veruleg áhrif á stöðu efnahagsmála í landinu. Þetta togast svolítið á. En vissulega er það rétt að maður undrast mjög þegar maður sér að fólk fær ekki greiðslumat miðað við einhverja afborgun en borgar jafnvel meira í leigu og hefur sýnt fram á að það hafi gert það í mjög langan tíma. Það er kannski ekki heldur alltaf alveg sambærilegt því að það fylgir því ákveðinn aukakostnaður að eiga fasteign sem leigutakar borga almennt ekki. En að teknu tilliti til þess kostnaðar skilur maður þetta ekki alveg. Ég tek alveg undir það. Þá má segja að það sé kannski óþarflega langt gengið á frelsi fólks í þessu máli nú þegar og hefur verið í talsverðan tíma og er ekki alveg nýtt. En hér er sú leið einfaldlega farin að menn telja greinilega nauðsynlegt að menn fari ekki offari í þessu sem getur haft áhrif á efnahagslegan stöðugleika þjóðarbúsins.