Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 109. fundur,  16. maí 2023.

Störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Herra forseti. Við skulum ræða hér störf þingsins nú þegar einhver stærsti alþjóðaviðburður Íslandssögunnar er að hefjast í Reykjavík, leiðtogafundur Evrópuráðsins, fjórði fundurinn sem haldinn er í 74 ára sögu ráðsins. Eðlilega eru þingstörf með einhverju öðru sniði og dagskráin breytist eitthvað, af augljósum ástæðum, af þessum sökum en það er eins og, herra forseti, það hafi ekki allir hv. þingmenn áttað sig á mikilvægi fundarins og umfangi hans hjá íslenskum stjórnvöldum og áhrifum á íslenskt þjóðlíf. Nokkrir þingmenn kvörtuðu yfir því í gær undir liðnum fundarstjórn forseta að ríkisstjórnin væri fjarverandi og það væru ekki mikilvæg mál á dagskrá. Fyrir utan að þetta er auðvitað alrangt þá lýsir þetta ákveðnu skilningsleysi á mikilvægi þess fundar sem nú er að bresta á. Það var hreyft við því og því kastað fram að þó svo að alþjóðastjórnmál eða -samstarf væri mikilvægt þá þyrfti samt að hafa fókusinn á tiltekin mál. Ég trúi því ekki, herra forseti, að það fari þannig með þingflokk Samfylkingarinnar t.d. að það séu allir þingmenn þeirrar skoðunar að sá fundur sem er nú haldinn í Reykjavík sé ekki mikilvægur. Hv. þm. Helga Vala Helgadóttir fór ágætlega yfir það í ræðu rétt áðan, það voru fín orð. Það er ekki hægt að láta eins og sá fundur sem er nú haldinn í Reykjavík sé eins og einhver fundur sem ráðherrar skreppi til meginlandsins og þurfi að mæta á í Brussel eða Strassborg. (BLG: Það sagði enginn.) Þetta er ekki þannig, herra forseti. Þetta var frekar ómerkilegt upphlaup. Við skulum því miklu frekar einblína á það sem skiptir máli hér í vikunni í störfum þingsins. Það er að þessi fundur takist vel (Forseti hringir.) og ríkisstjórn og stjórnvöld verði landi til sóma (Forseti hringir.) en þessi fundur verði líka til gagns og skili árangri í þeirri vegferð að Evrópa feti sig nær friði.