Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 109. fundur,  16. maí 2023.

Störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég átti þess kost að sækja kynjaþing Kvenréttindafélagsins um liðna helgi. Þar var fjallað um mjög mörg áríðandi mál en mig langar að vekja athygli á einu þeirra hér og það er virðismat kvennastarfa. Það er án nokkurs efa mikilvægasta verkefni á íslenskum vinnumarkaði að útrýma þeim launamun sem stafar af kynskiptingu hans og þess að hin svokölluðu hefðbundnu kvennastörf eru metin til lægri launa en hefðbundin karlastörf. Tökum eitt dæmi úr samtímanum af handahófi, úr sveitarfélagi á Íslandi: Karl sem er starfsmaður íþróttamannvirkis fær meira en milljón krónur í mánaðarlaun. Kona sem starfar á leikskóla er með minna en 500.000 kr. í mánaðarlaun. Hér er bara virðismatið komið í hnotskurn, virðismatið í samfélaginu sem segir okkur að mannvirki skipti meira máli en uppeldi og aðhlynning barna og ungmenna. Það þarf nefnilega, hæstv. forseti, að greiða konum mannsæmandi laun. Aðeins þannig geta konur átt einhverja von á því að fá sömu ævitekjur og karlar en ekki vera 20% lægri, eða jafnvel 25% lægri eins og þekkist nú um stundir, vegna þess að konur á lágum launum fá líka lág eftirlaun. Þær fá líka verri réttindi á vinnumarkaði og þær eru ósköp einfaldlega snuðaðar um réttmæt laun fyrir mjög mikilvæg störf í íslensku samfélagi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)