Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 109. fundur,  16. maí 2023.

Störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegur forseti. Nú standa yfir verkföll hjá fólki sem sinnir ómissandi störfum í samfélaginu; í leikskólum, grunnskólum, þjónustu við fatlað fólk og svona mætti lengi telja. Þetta eru mikið til konur, flestar með laun á bilinu 420.000–470.000 kr. og hafa litla möguleika á yfirvinnu. Fram undan eru svo kjaraviðræður á almenna og opinbera markaðnum við mjög krefjandi aðstæður á tímum mikillar verðbólgu, hárra vaxta og húsnæðiseklu og ríkisstjórn Íslands getur ekki látið eins og þetta komi henni ekki við. Það eru stjórnvöld og löggjafinn sem móta rammann og leikreglurnar í samfélaginu og það er á ábyrgð stjórnmálanna að reka hér efnahags- og velferðarstefnu sem stuðlar að stöðugleika í samfélaginu, stöðugleika á vinnumarkaði og að halda úti sterkri almannaþjónustu og velferðarkerfi sem virkar.

Forseti. Við eigum ærin verkefni fyrir höndum og leiðtogafundur Evrópuráðsins leysir ríkisstjórnina ekki undan þeim. Við þurfum að vinna á verðbólgunni með skynsamlegum aðhaldsaðgerðum, með sanngjörnum sköttum á hæstu tekjurnar, arðgreiðslurnar og auðlindarentuna. Við þurfum að taka fast á húsaleiguokri með leigubremsu og réttarbótum fyrir leigjendur. Við þurfum að styðja við tekjulág og skuldsett heimili með því að lyfta upp hámarki vaxtabóta. Við þurfum að lengja fæðingarorlofið í skrefum og gera reiknireglurnar í kerfinu sanngjarnari. Við þurfum að stokka upp í almannatryggingakerfinu, stöðva kjaragliðnunina og draga úr ósanngjörnum skerðingum sem bíta neðst í tekjustiganum. Það verður engin þjóðarsátt hérna á Íslandi án öryrkja og eftirlaunafólks. Við getum ekki sætt okkur við að þessir hópar séu enn og aftur skildir eftir. Síðast en ekki síst þarf ríkisstjórn Íslands að sýna að henni sé alvara í húsnæðismálum, fullfjármagna rammasamninginn sem gerður var við sveitarfélög um húsnæðisuppbyggingu og endurvekja trúna á að markmið þessa samnings náist. Svo þarf að klára á þessu löggjafarþingi þau frumvörp sem samið var um sem gefa sveitarfélögum heimildir til að tryggja blandaða byggð óháð eignarhaldi lóða, vinda ofan af skaðlegum breytingum sem voru gerðar í desember á frumvarpi um húsaleigulög (Forseti hringir.) og lögfesta tímabindingu uppbyggingarheimilda til að sporna gegn því að verktakar liggja á lóðum án þess að uppbygging fari fram. (Forseti hringir.) Þetta er aðeins brotabrot af þeim verkefnum sem fram undan eru í efnahags- og velferðarmálum og, virðulegi forseti, ríkisstjórnin getur ekki bara gefist upp á þeim, (Forseti hringir.) það eru gerðar kröfur til hennar hér í þessum sal og úti í samfélaginu. Ég kalla eftir því að ríkisstjórnin sýni forystu í þessum efnum sem öðrum og taki verkefni sitt alvarlega. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)(Gripið fram í.)