Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 109. fundur,  16. maí 2023.

sérstök tímabundin ívilnun við endurgreiðslu námslána til lánþega í dýralæknanámi.

778. mál
[16:04]
Horfa

Flm. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hér er ég komin til að mæla fyrir tillögu til þingsályktunar um sérstaka tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána til lánþega í dýralæknanámi. Tillagan liggur fyrir á þingskjali 1181 og er mál nr. 778 sem má m.a. finna á vef þingsins. Fyrsti flutningsmaður málsins er hv. þm. Þórarinn Ingi Pétursson og mæli ég því fyrir málinu í hans fjarveru. Sú sem hér stendur er ein af meðflutningsmönnum málsins ásamt hv. þingmönnum Stefáni Vagni Stefánssyni, Hafdísi Hrönn Hafsteinsdóttur og Ingibjörgu Isaksen.

Virðulegi forseti. Í tillögunni sem hér er mælt fyrir er lagt til að háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra verði falið í samráði við matvælaráðherra og innviðaráðherra að vinna skýrslu með aðkomu Sambands íslenskra sveitarfélaga og Byggðastofnunar um sérstaka tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána til lánþega í dýralæknanámi. Ráðherra geri Alþingi grein fyrir niðurstöðum skýrslunnar eigi síðar en 1. nóvember 2023.

Í greinargerð með tillögunni er tillagan rökstudd með ítarlegum hætti og hér ætla ég að fara yfir helstu atriði og útskýra hvers vegna tillagan er sett fram akkúrat eins og ég var að fara yfir áðan. Síðustu ár hefur skortur á dýralæknum hér á landi verið viðvarandi og engar vísbendingar eru um að það breytist nema farið verði í sérstakar aðgerðir til að bæta stöðuna. Skortur á dýralæknum hefur m.a. áhrif á aðgengi bænda og almennings að dýralæknaþjónustu sem getur aftur haft alvarleg og óafturkræf áhrif á heilsu og velferð dýra auk óviðunandi starfsumhverfis og fjárhagslegs tjóns fyrir bændur. Óbeint getur skortur á dýralæknaþjónustu svo haft áhrif á fæðuöryggi og lýðheilsu. Bændasamtök Íslands og Matvælastofnun hafa ítrekað vakið athygli stjórnvalda á skorti á dýralæknum og óskað eftir því að stjórnvöld beiti sér fyrir aðgerðum til úrbóta. Þeirri sem hér stendur er ekki kunnugt um að stjórnvöld hafi brugðist við með markvissum aðgerðum. Þess vegna er þessi tillaga sem hér er mælt fyrir afar mikilvæg en með henni er lagt til að ákvæði í lögum um Menntasjóð námsmanna verði nýtt til umbóta. Þegar breyting var gerð á lögum um námslán og Menntasjóður námsmanna varð til var sett í lög leið til að beita ívilnandi aðgerð til að bregðast við skorti á tiltekinni þekkingu í landinu eða á ákveðnum landsvæðum. Víða um land hefur verið erfitt að manna ákveðnar starfsstéttir. Þessi nýmæli í lögum um Menntasjóð, sem hæstv. fyrrverandi menntamálaráðherra Lilja Alfreðsdóttir kom á á sínum tíma, eru afar mikilvæg tæki til að bregðast við þegar erfitt reynist að manna nauðsynlegar stöður. Flutningsmenn þessarar tillögu telja brýnt að þessi leið verði nýtt í auknum mæli almennt þótt hér í þessari tillögu sé lögð áhersla á dýralækna.

Til að ráðherra geti ákveðið sérstaka tímabundna ívilnun þarf að liggja fyrir tillaga frá sveitarfélagi eða sveitarfélögum um þörf á menntuðu fólki í tiltekinni byggð eða á tilteknu svæði. Því þarf greiningu Byggðastofnunar á stöðunni og því gengur tillagan sem hér er til umfjöllunar út á að fela Byggðastofnun að fara í slíka greiningu. Í kjölfarið er svo gert ráð fyrir að skýrslan verði unnin af Byggðastofnun í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Tilgangur skýrslunnar væri þá að varpa ljósi á aðstæður og greina þörf á menntuðu fólki. Þá væri skilyrði að lánþegi sem búsettur er á skilgreindu svæði nýtti sér í reynd menntun sína til starfa í a.m.k. 50% starfshlutfalli á viðkomandi svæði í að lágmarki tvö ár.

Aðeins nánar um heimildina. Í lögum um Menntasjóð, nr. 60/2020, er að finna í 27. gr. heimild til ráðherra til að veita tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána vegna tiltekinna námsgreina, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Heimildin er ætluð til þess að gefa ráðherra tækifæri til að bregðast við ástandi þar sem skortur er viðvarandi eða fyrirsjáanlegur á fólki með tiltekna menntun til að skapa sérstaka hvata fyrir fólk til að sækja sér menntun eða til að starfa í tiltekinni starfsgrein. Til þess að háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra geti ákveðið að fara í sérstaka tímabundna ívilnun þurfa að liggja fyrir upplýsingar um viðvarandi skort í ákveðinni starfsstétt eða að hann sé fyrirsjáanlegur. Þar með er gert ráð fyrir að unnin verði skýrsla af stjórnvöldum í samráði við hlutaðeigandi atvinnurekendur eða samtök atvinnurekenda sem byggir m.a. á fyrrgreindum upplýsingum. Tilgangur skýrslunnar væri að varpa ljósi á aðstæður og greina þörfina á viðbrögðum við skorti eða fyrirsjáanlegum skorti á dýralæknum og í þessu tilfelli væri það tilgangurinn.

Þá er í 28. gr. sömu laga um Menntasjóð að finna heimild til ráðherra til að veita tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána til lánþega sem búsettir eru á svæðum skilgreindum í samráði við Byggðastofnun, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Tilgangur heimildarinnar er af sama meiði og ég hef hér rakið, þ.e. að gefa ráðherra tækifæri til að bregðast við ástandi þar sem skortur er á sérmenntuðu fólki á ákveðnum svæðum. Rekja má fyrirmyndina til Noregs þar sem t.d. kennarar sem starfa í hinum dreifðari byggðum, eins og Finnmörku eða Norður-Tromsfylki, eiga möguleika á að fá afskrifaðan hluta af námslánum sínum ef þeir starfa sem kennarar í 50% starfi samfellt í a.m.k. 12 mánuði. Til þess að ráðherra geti ákveðið sérstaka tímabundna ívilnun þarf að liggja fyrir tillaga frá svæðunum, eins og áður sagði, þ.e. í Noregi þarf að liggja fyrir tillaga frá yfirvöldum á ákveðnu svæði á sama hátt og rakið var hér að framan um skilyrðin í lögunum um Menntasjóð námsmanna.

Markmið og efni tillögunnar sem ég er hér að fylgja eftir snýr því að því að gerð verði skýrsla um þau áhrif sem skortur á dýralæknum hefur og mun hafa á íslenskan landbúnað og dýravelferð á komandi árum. Þá er markmiðið jafnframt að varpa ljósi á aðstæður í hinum dreifðari byggðum þar sem skortur er á dýralæknum og stór eftirlitssvæði eru í höndum fárra. Full þörf er á að löggjafinn gæti þess að ívilnandi aðgerðir stjórnvalda nýtist til að efla samfélagið í heild á grundvelli sjónarmiða um jafnræði og að þær taki mið af byggðastefnu og atvinnuháttum um allt land.

Sú sem hér stendur telur þetta mjög mikilvægt verkefni sem brýnt er að farið verði í strax en jafnframt er rétt að geta þess að fara þarf í frekari umbætur á starfsumhverfi dýralækna með heildarendurskoðun á þjónustu og vaktakerfinu, eins og hv. þm. Þórarinn Ingi Pétursson hefur einnig lagt til, en vaktafyrirkomulag og bakvaktaálag dýralækna sætir mikilli gagnrýni um land allt og einskorðast hreint ekki við dreifðari byggðirnar. Þetta fyrirkomulag hefur til að mynda gert það að verkum að ekki hefur tekist að manna vaktir, t.d. á höfuðborgarsvæðinu, og leita hefur þurft til umdæma í næsta nágrenni til þess. Í hinum dreifðari byggðum er það m.a. stærð svæðanna þar sem stór einstök svæði eru einungis með einn dýralækni á vakt allt árið um kring, með því gríðarlega bakvaktaálagi sem því fylgir, og sums staðar á landinu eru eftirlitssvæðin svo stór að einn dýralæknir getur með engu móti sinnt starfinu á ásættanlegan hátt. Skipulag vaxtamála eru á ábyrgð Matvælastofnunar. Það er hins vegar ljóst að stofnuninni hefur ekki tekist að uppfylla það hlutverk sitt að skipuleggja bakvaktir í samráði við dýralækna á öllum svæðum og þar með tryggja nauðsynlega grunnþjónustu um allt landið. Þar spila saman skortur á dýralæknum og svæðaskiptingin og vaktaálagið.

Dýralæknar eru meðvitaðir um skyldur sínar þegar kemur að því að hjálpa dýrum í neyð. Hins vegar er dýralæknum oft gert ómögulegt að uppfylla þær starfsskyldur sem á herðar þeirra eru lagðar. Stjórnvöld í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi hafa öll sett af stað umfangsmikla vinnu við að greina vandann og þær áskoranir sem fylgja því að færri dýralæknar fáist í störf og taki að sér bakvaktir. Afar mikilvægt er að farið verði í þá vinnu hér á landi einnig að tryggja menntun dýralækna og endurskoða skipulag þjónustu og vaktakerfis.

Virðulegi forseti. Að lokum legg ég áherslu á að þessari tillögu sem ég hef hér mælt fyrir, um sérstaka tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána til lánþega í dýralæknanámi, verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og þar verði hún send til umsagnar, um hana verði fjallað og hún afgreidd. Ef okkur er annt um velferð dýra og starfsumhverfi og velferð bænda er nauðsynlegt að tryggja að nægilega margir menntaðir dýralæknar búi á Íslandi og þeir hafi búsetu um land allt.