154. löggjafarþing — 109. fundur,  8. maí 2024.

heilbrigðisþjónusta.

728. mál
[15:52]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir hönd meiri hluta velferðarnefndar fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, um fjarheilbrigðisþjónustu. Frumvarp þetta byggist á tillögum starfshóps heilbrigðisráðuneytis sem falið var að leggja fram tillögur að skilgreiningu á hugtakinu fjarheilbrigðisþjónusta en starfshópurinn var settur á laggirnar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða í lögum um heilbrigðisþjónustu. Undir skilgreininguna fellur fjarsamráð, fjarvöktun, myndsímtöl, netspjall, hjálparsími og velferðartækni.

Meiri hlutinn telur brýnt að frumvarpið verði að lögum og telur það mikilvægt og nauðsynleg skref séu stigin með því að skýra og samræma lagalega hugtakanotkun hvað varðar fjarheilbrigðisþjónustu. Miklar tækniframfarir hafa orðið á síðastliðnum árum og er að mati meiri hlutans er brýnt að löggjöf taki mið af þeirri þróun og standi ekki í vegi fyrir henni.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund gesti og bárust umsagnir. Það er greint frá því í nefndaráliti og nefndarálitið liggur frammi. Í kjölfar umfjöllunar nefndarinnar um málið vill meiri hlutinn árétta sérstaklega: Nefndin fjallaði um aðgengi að fjarheilbrigðisþjónustu. Í umsögnum bæði Öryrkjabandalags Íslands og Landssamtakanna Þroskahjálpar er lögð sérstök áhersla á gott aðgengi að fjarheilbrigðisþjónustu. Þar er m.a. bent á að fatlað fólk geti átt erfitt með að nýta sér fjarheilbrigðisþjónustu og geta ástæðurnar fyrir því verið margþættar. Auk þess kom fram við umfjöllun í nefndinni að mikilvægt væri að skilgreina leiðir fyrir þá hópa til að nýta sér fjarheilbrigðisþjónustu til jafns við aðra. Meiri hlutinn tekur undir mikilvægi þess að öllum hópum verði tryggður aðgangur til jafns að fjarheilbrigðisþjónustu og að stafræn heilbrigðisþjónusta taki mið af þörfum ólíkra hópa. Í því sambandi bendir meiri hlutinn á að félags- og vinnumarkaðsráðherra, heilbrigðisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra undirrituðu á vormánuðum ársins 2020 viljayfirlýsingu um þróun á lausnum á rafrænu aðgengi fyrir fatlað fólk. Á grundvelli þeirrar viljayfirlýsingar var skipaður starfshópur sem hefur nú skilað af sér tillögum um aukið aðgengi fatlaðs fólks að rafrænni heilbrigðis- og fjármálaþjónustu.

Ég vil einnig nefna að nú í vor samþykktum við hér í þingsal framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024–2027. Ein aðgerð þar miðar sérstaklega að þróun að lausnum á rafrænu aðgengi fyrir fatlað fólk. Það felur í sér að greiða aðgengi fatlaðs fólks að rafrænni þjónustu með áherslu á aðgengi að heilbrigðisgáttum og fjármálaþjónustu bankastofnana. Horft verði til stöðu þeirra einstaklinga sem hafa persónulega talsmenn og jafnframt verði lausnir þróaðar sem nýst gætu fleiri markhópum sem ekki hafa bein umráð yfir rafrænu auðkenni.

Þá fjallaði nefndin um hugtakanotkun í frumvarpinu en við umfjöllun nefndarinnar komu fram sjónarmið þess efnis að ákvæði 1. gr. kynni að ýta undir óvissu um gildissvið og skarast á við aðra löggjöf á sviði velferðarmála, um félagsþjónustu sveitarfélaga og önnur skyld svið. Í lögum um heilbrigðisþjónustu er hugtakið heilbrigðisþjónusta skilgreint sem hvers kyns heilsugæsla, lækningar, hjúkrun, sjúkrahúsþjónusta, sjúkraflutningar, hjálpartækjaþjónusta og þjónusta heilbrigðisstarfsmanna innan og utan heilbrigðisstofnana sem veitt er í því skyni að efla heilbrigði, fyrirbyggja, greina eða meðhöndla sjúkdóma og endurhæfa sjúklinga. Þjónusta sem kann að vera veitt á grundvelli annarra laga, svo sem laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, fellur því ekki undir þá skilgreiningu og meiri hlutinn telur ekki að framangreint muni valda vandkvæðum við túlkun ákvæðis 1. gr. frumvarpsins eins og það er sett fram og telur því ekki ástæðu til að leggja til breytingu í þá veru.

Nefndin fjallaði að auki um 4. gr. frumvarpsins þar sem segir að heilbrigðisstofnanir, sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn og aðrir sem veita heilbrigðisþjónustu skuli við skipulagningu og veitingu fjarheilbrigðisþjónustu uppfylla fyrirmæli landlæknis um upplýsingaöryggi í samræmi við lög um landlækni og lýðheilsu. Í umsögn Viðskiptaráðs Íslands segir m.a. að ráðið telji nauðsynlegt að þau fyrirmæli sem vísað er til verði útfærð í reglugerð en ekki með almennum fyrirmælum stjórnvalds, þ.e. embættis landlæknis. Meiri hlutinn telur rétt að árétta að unnið er að stefnumótun á þessu sviði eins og fram kemur í minnisblaði frá ráðuneyti. Telur meiri hlutinn ekki vera næg rök fyrir því að bregðast við þessari athugasemd með breytingartillögu en þó er mikilvægt að ráðuneytið taki framangreindar athugasemdir til skoðunar við stefnumótun. Einnig kom fram í umsögn Persónuverndar að betra væri að vísa í 1. mgr. 5. gr. laga um landlækni og lýðheilsu í stað 1. mgr. 6. gr. Heilbrigðisráðuneytið tók undir það sjónarmið og meiri hlutinn gerir það líka en það er ekki þörf á breytingum þar sem þetta var einungis í greinargerð frumvarpsins.

Að framansögðu virtu leggur meiri hluti nefndarinnar til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til í nefndaráliti.

Undir álit meiri hluta nefndarinnar rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Steinunn Þóra Árnadóttir, Bryndís Haraldsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Óli Björn Kárason, Ásmundur Friðriksson, Jóhann Páll Jóhannsson og Guðmundur Ingi Kristinsson.

Hæstv. forseti. Ég lýsi ánægju minni með að hæstv. heilbrigðisráðherra hafi lagt fram þetta mikilvæga mál sem snýr að því að skilgreina fjarheilbrigðisþjónustu í lögum. Samstarfið í hv. velferðarnefnd var gott og þakka ég fyrir það. Fjarheilbrigðisþjónusta er klárlega ein þeirra tæknilausna sem geta skipt svo gríðarlega miklu máli fyrir fólk um allt land. Til eru mörg dæmi um einstaklinga sem ferðast langt og taka sér frí frá vinnu, stundum í fleiri daga, til að hitta lækna og sérfræðinga, og sérstaklega í ljósi þess að meiri hluti sérfræðinga í heilbrigðisgeiranum er staðsettur á suðvesturhorni landsins getur þetta verið flókið fyrir hluta landsmanna. Í sumum tilvikum er ferðin þó nauðsynleg en oft er möguleiki á því að samskipti læknis og skjólstæðings eigi sér stað með fjarheilbrigðislausnum. Sem dæmi má taka viðtöl við sálfræðinga og talmeinafræðinga. Með þessu erum við að opna frekar á þann möguleika. Fjarheilbrigðisþjónusta getur líka nýst við heimahjúkrun, sem getur verið sérstaklega hentugt í dreifbýli. Hún getur einnig aukið og auðveldað teymisvinnu fagfólks sem búsett er um allt land eða mögulega í öðrum löndum. Þetta getur fækkað ónauðsynlegum og oft dýrum ferðalögum og aukið hagkvæmni.

Það er ljóst að síðastliðin ár hefur átt sér stað hröð þróun í tæknilausnum í heilbrigðisgeiranum. Það er stýrihópur um þróun og stefnumótun um stafrænar lausnir hjá heilbrigðisráðuneytinu þar sem þau hafa hið mikilvæga hlutverk að skoða stafrænar lausnir og nýtingu nýrrar tækni sem mikilvægt er að skoða vegna þess að við þurfum að vita hvernig hægt sé að nýta tæknina og hvernig hún lýtur þeim lögum sem við höfum sett.

Þetta frumvarp er eitt skref í því að vinna að sameiginlegum skilningi á því hvað felst í þeim tæknilausnum sem við höfum og grunnreglum um það hvernig skuli nota þær. Könnun OECD frá árinu 2020 sýndi fram á ávinning af fjarheilbrigðisþjónustu vegna aukinnar samfellu við veitingu heilbrigðisþjónustu.

Ég vil einnig nefna að fjarheilbrigðisþjónusta er ein af aðgerðum byggðaáætlunar, aðgerð A.5. Markmiðið er að aðgengi að heilbrigðisþjónustu verði aukið og bætt með nýsköpun og nýtingu tækni og fjarskipta við framkvæmd þjónustu. Í byggðaáætlun kemur fram, með leyfi forseta, að með innleiðingu á fjarheilbrigðisþjónustu verði leitast við að jafna aðgengi almennings að almennri og sérhæfðri heilbrigðisþjónustu. Jafnframt verði rafræn miðlun heilbrigðisþjónustu nýtt til að auka aðgengi að sérfræðiþekkingu og þar með gagnkvæmri faglegri ráðgjöf, samráði og samstarfi og með þeim hætti verði teymisvinna innan heilbrigðisþjónustunnar auðvelduð.

Fjarheilbrigðisþjónusta er eitt verkfærið sem við fáum í hendurnar til að auka jafnrétti og færa sérhæfða heilbrigðisþjónustu nær fólki um allt land og ég fagna þessu máli.