132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Niðurstaða fjölmiðlanefndar.

[13:51]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég talaði áðan um sérkennilegar uppákomur á landsfundi Sjálfstæðisflokksins og ég var þar að sjálfsögðu ekki að vísa til þess að flokkurinn hefði markað sér stefnu í einu og öðru þó að auðvitað megi hafa um það einhver orð. Hin sérkennilega uppákoma var auðvitað ræða fráfarandi formanns flokksins og einnig hvernig eftir fundinn núverandi formaður og varaformaður runnu í þá slóð sem formaðurinn markaði áður en hann stóð upp úr formannsstólnum.

Ég skoða samþykktir landsfundar Sjálfstæðisflokksins af fullri alvöru. Ég hef ekki orðið vör við að þar standi neitt um neinar prósentur í samþykktum um eignarhald á fjölmiðlum. Ég varð ekki vör við að þar væri nefnd nein prósenta yfirleitt, ekki 25%, 10% eða 5%. Það er því algerlega túlkun þessara ráðamanna að 25% séu of há og að prósentan eigi að vera eitthvað lægri. Og núna stendur hæstv. menntamálaráðherra í þeim sporum að hún verður að gera annað tveggja, hlaupast undan merkjum sáttar sem náðist hér þvert á alla pólitíska flokka í vor og líka sátta við alla þá sem koma að fjölmiðlum í landinu eða hitt að hún verður að hlaupast undan merkjum þeirrar stefnu sem mörkuð var á landsfundi Sjálfstæðisflokksins miðað við þá túlkun sem hún leggur í stefnuna í ræðustól Alþingis.

Ég lít hins vegar svo á að ég hafi orð hæstv. forsætisráðherra fyrir því að það frumvarp sem lagt verði fram byggi á tillögunum sem fjölmiðlanefndin kom sér saman um og voru samþykktar þar. Hvað gerist með það frumvarp í þinginu er svo önnur saga því að þingið tekur það auðvitað til umfjöllunar. En að frumvarpið verði lagt fram og byggi á tillögum fjölmiðlanefndar tel ég mig hafa orð hæstv. forsætisráðherra fyrir.