132. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2005.

Fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar.

182. mál
[15:23]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Herra forseti. Ég vildi gjarnan koma því að vegna ummæla hv. þm. Önnu Kristínar Gunnarsdóttur að það er kannski ekki sanngjarnt að leggja málið út á þann veg sem hún gerði að draga upp mikinn meintan mismun á framlögum til menntamála eftir landshlutum. Það verður auðvitað að skoða framlög til menntamála í heild til að fá raunhæfan samanburð á því hvað fer til menntamála á viðkomandi landsvæði. Þannig væri sanngjarnt að taka tillit til þess að talsvert fé fer til menntunar á Norðurlandi með framlögum til Hólaskóla, á Vesturlandi með framlögum til Landbúnaðarháskóla Íslands og Viðskiptaháskólans á Bifröst. Ég held að nauðsynlegt sé að hafa þessa hluti til hliðsjónar þegar menn gera þann samanburð sem hv. þingmaður gerði og mér fannst að sumu leyti vera ósanngjarn.