138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afskriftir af höfuðstól lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

4. mál
[16:17]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Frú forseti. Það hefði verið ánægjulegt ef hv. þm. Pétur Blöndal hefði kannski verið hérna þegar ég flutti framsöguræðu mína þar sem ég lagði fram tillögu um það hvernig væri hægt að fara í þessa útfærslu. Ef hv. þingmaður tók ekki nákvæmlega eftir því sem ég talaði þá um er hægt að fara inn á Alþingisvefinn og hlusta á hana aftur, þar sem við lögðum til ákveðna leið til að fara í þessa aðgerð.

Ég vil bara ítreka að ég hef hlustað núna þrisvar sinnum á þessa ræðu hjá hv. þm. Pétri Blöndal um þetta mál og það hefur alltaf ítrekað komið fram að það er enginn skilningur á því hvað við erum hér að tala um og það virðist heldur ekki vera neinn skilningur á þeim forsendubresti sem hefur orðið í íslensku samfélagi. Það er heldur ekki neinn skilningur á því að sú ástæða fyrir t.d. að verðtryggðu lánin hafa hækkað svona gífurlega tengist þessum forsendubresti og tengist því að við erum að nota stórlega gallað mælitæki til þess að mæla einhverja neyslu sem er ekki til staðar.

Hv. þingmaður benti á að í könnun Hagsmunasamtaka heimilanna hefði komið fram að fólk væri að leggja fyrir. Ég þekki það að margir eru núna að leggja fyrir með því jafnvel að borga ekki skuldir sínar, vegna þess að menn ætla sér ekki að taka þátt í þessu. Fólk er búið að tapa milljónum á því að taka þátt í samfélaginu. Það er það sem ég hef miklar áhyggjur af sem verður líka vandamálið með þær tillögur sem eru komnar fram frá ríkisstjórninni um það að skipta út vísitölu, að við erum að búa til svo neikvæðan hvata, við erum einmitt að hvetja fólk til þess að segja bara: Við erum ósátt og okkur finnst að við höfum verið beitt óréttlæti og þó við gætum borgað, þá erum við bara ekki tilbúin til þess vegna þess að það er búið að fara svo illa með okkur.