138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[18:12]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég nefndi við hv. þingmann um daginn þykir mér greinargerðin með tillögunni býsna ofsafengin. Þar er ýmislegt sem ég mundi ekki skrifa upp á og mjög margt reyndar, hún er hápólitísk og ofsafengin og býsna yfirdrifin af því að þar er fjallað um svo margt; áhrifin á stöðugleikasáttmálann, hugsanlegt lögmæti ákvörðunar og fleira og fleira sem ég hef engar forsendur til að leggja mat á.

Tillöguna sjálf og sem slíka, ég styð hana já, mundi greiða atkvæði með henni, það mundi ég gera. En ég var mjög ósáttur við margt sem var lagt upp með í greinargerðinni og þótti þar gengið mjög harkalega fram og farið um víðan völl í málinu. Það er eins og gengur enda er málið samið á nokkuð flokkspólitískum nótum. Þetta er bara svo alvarlegt mál og þetta snýr að svo mikilsverðum hagsmunum að það er engin ástæða til að fella það ofan í dýpri skotgrafir flokkastjórnmála en menn eru að gera og efni standa til. Það er gert hér í rauninni um öll mál, smámál og stórmál, og er ein helsta ógæfa íslenskra stjórnmála að þá er engin ástæða til að fara dýpra ofan í þær. Þetta er tengt við afstöðu flokka og manna til álvera og þess vegna er ágætt að það liggi alveg skýrt fyrir hvar menn standa í því. Það er heiðarleg og opinská afstaða auðvitað margra stjórnmálamanna að vera á móti áluppbyggingu sem nýtingu orkunnar, það liggur bara fyrir. Ég er ekki á móti því og hef aldrei verið það þó að það megi færa rök fyrir því að við höfum sett ansi mikið undir í þeim geira. Ef það kæmi áfall á heimsmörkuðum á áli mundum við finna mjög hressilega fyrir því og væri mjög heppilegt að vera með meiri dreifingu í þessu. En þetta er bara staða sem uppi er í dag á mjög erfiðum tímum í íslensku samfélagi og þess vegna verðum við að nýta þetta til hins ýtrasta.