138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[19:24]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, við hv. þingmaður erum sannarlega ósammála. Ég þarf ekkert að úttala mig um það hvar ég stend í stóriðjumálum, það veit hv. þingmaður og þar greinir okkur svo sannarlega á. En þegar kemur að þessari ákvörðun umhverfisráðherra hlýtur hv. þingmaður að vera mér sammála um að það (UBK: Vanda stjórnsýsluhætti.) er hluti af vandaðri stjórnsýslu að krefjast allra upplýsinga upp á borð áður en efnisleg ákvörðun er tekin í stað þess að keyra í gegn, nákvæmlega eins og voru vinnubrögð fyrir hrun í boði Sjálfstæðisflokks og fleiri stóriðjuflokka, að keyra í gegn slíkar framkvæmdir þvert á vandaða og góða stjórnsýsluhætti. (Gripið fram í.)

Við erum hingað komin, við vinstri græn, til þess einmitt að standa vörð um umhverfið og standa vörð um góða stjórnsýslu í þágu umhverfisins samkvæmt íslenskum lögum sem eru í gildi. Það er hæstv. umhverfisráðherra að gera og hefur fullan rétt til að gera það sem hún er að gera.