138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[19:41]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf):

Frú forseti. Það blandast engum hugur um það sem sótti borgarafund í Reykjanesbæ í síðustu viku að atvinnumálin hvíla þungt á íbúum sveitarfélagsins og sveitarfélaganna á Suðurnesjum enda er það eðlilegt þar sem atvinnuleysi þar er langtum meira en annars staðar á landinu. Ég held hins vegar að ákvörðun umhverfisráðherra sé ofmetin og oftúlkuð ef maður skoðar hana í víðu samhengi. Ég tek undir það að hún er óheppileg og hún ruggar bátunum, hún ruggar málinu svo sannarlega en áhrifin eru stórlega ofmetin vegna þess að ég held að Skipulagsstofnun muni jafnvel afgreiða málið fljótlega í byrjun næsta mánaðar. Síðan verðum við að vona — við getum aldrei sagt fyrir um það hvort sú verður reyndin en við verðum að vona að ákvörðun Skipulagsstofnunar verði ekki kærð. Þessi ákvörðun umhverfisráðherra er óheppileg en hún er stórlega ofmetin. Ég held að áhrifanna gæti kannski fyrst og fremst í því mikla fári sem ýmsir hafa skapað um hana.

Ég hef sagt það fyrr að ég er ekki talskona stóriðju en ég styð heils hugar uppbyggingu álvers í Helguvík enda er sú framkvæmd farin af stað og hún heldur áfram hvað sem líður gaspri okkar hér inni á þingi vegna þess að þar er fólk að störfum og verkið heldur áfram. Eins og hæstv. utanríkisráðherra kom inn á áðan er Landsnet um það bil búið að fjármagna væntanlega lagningu Suðvesturlínu og hefst sú framkvæmd vonandi eftir áramót. Hins vegar er eftir að ganga frá ýmsum skipulagsmálum í kringum lagningu þessarar línu þannig að svo gæti farið að þau máli tefji meira fyrir en þessi ákvörðun umhverfisráðherra. En að hvoru tveggja er unnið af heilum hug og ég hef trú á því að þessi ákvörðun muni ekki tefja málið í heild sinni og að framkvæmdir í Helguvík tefjist ekki vegna þessa máls.

Ég sagði á þessum borgarafundi í Reykjanesbæ að við eigum að taka höndum saman um að stuðla að atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum. Ég held að það sé það stórt vandamál að íslensk flokkapólitík eigi ekki að standa fyrir hugmyndum í þeim efnum. Við eigum að taka höndum saman um að leysa atvinnumálin á Suðurnesjum. Á þessum fyrrnefnda fundi var sagt frá ýmsum góðum verkefnum sem nú þegar eru komin af stað og þurfa orku og munu fá orkuna, svo sannarlega því orkan kemur og hún er þarna. En það voru nefnd mörg góð verkefni og fjölmörg vel unnin störf og áhugaverð sem eru í uppsiglingu á Suðurnesjum sem er vel og var þar m.a. nefnt rafrænt gagnaver, heilsuuppbygging, tónlistarsköpun, kolefnisnýting, flugþjónusta og áframhaldandi styrking menntastoða á Keili. Ég saknaði reyndar sjálf að sjá aldrei hugmyndir um að nýta jarðhitann til ýmiss konar ylræktar og það vekur furðu mína að landsvæði sem er jafngjöfult að jarðhita skuli aldrei hafa farið út í ylrækt í stórum stíl vegna þess að ef ekki forsendur þar þá veit ég ekki hvar þær eru. Þær eru að vísu á Suðurlandi.

Ég held að við eigum að nýta tímann núna vegna þess að það er verið að vinna að mörgum góðum verkefnum og við skulum líka nota tímann núna til að bjóða upp á menntun sem hæfir þeim framtíðarstörfum sem við stefnum að. Við þingmenn Suðurkjördæmis eigum að taka höndum saman um að tryggja starfsemi Keilis, háskólabrúar á Keflavíkurflugvelli, og við eigum að styðja líka miðstöð símenntunar á Suðurnesjum að búa fólk undir þau framtíðarstörf sem íbúar Suðurnesja og þingmenn Suðurkjördæmis vilja sjá í framtíðinni vegna þess að það er alveg vitað mál að menntunarstig er lægra á Suðurnesjum en annars staðar á landinu og við eigum að nýta tímann núna og sýna ábyrga pólitík og styðja við menntun á Suðurnesjum. Það held ég að skipti verulega miklu máli og ég legg til að við tökum höndum saman um það.

Að öðru leyti vil ég segja það að ýmsir hafa áhyggjur af fjárfestingum til góðra verkefna í framtíðinni en þá verð ég að koma því að að margt bendir til að þegar við höfum fengið stöðu aðildarviðræðuríkis hjá Evrópusambandinu, sem vonandi verður í desember, þá muni okkur opnast ýmsar fjármögnunarleiðir einmitt sérstaklega til umhverfisvænna verkefna enda er það í samræmi við áherslur Evrópusambandsins. Til dæmis er ekki loku fyrir það skotið að langþráð lán Orkuveitu Reykjavíkur m.a. til túrbínukaupa gæti farið í gegn þegar við höfum fengið stöðu aðildarviðræðuríkis hjá Evrópusambandinu vegna þess að þá er nokkuð ljóst að ýmsir möguleikar munu opnast. En mér gefst því miður ekki tími til að biðja hæstv. fjármálaráðherra að kanna þetta fyllilega þar sem ég hef aðeins skamman tíma á þingi og fyrirspurn mín þar um nær víst ekki að komast á dagskrá áður en ég yfirgef þingið.

En ég segi að við hv. þingmenn verðum líka að sýna ábyrgð og festu og við megum ekki tala niður góð verkefni. Við verðum að sýna ábyrgð í okkar málflutningi og við skulum aðeins hafa í huga hvort hér hafi ekki verið gerður úlfaldi úr mýflugu með þessari ákvörðun umhverfisráðherra. Ég held að svo margt annað hangi á spýtunni í þessari framkvæmd sem muni þurfa að vinna samhliða því að þetta mál gengur sinn eðlilega farveg.