138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[20:25]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt annað en bregðast við ræðu hæstv. ráðherra. Það er með ólíkindum að ráðherrann skuli snúa út úr því sem ég sagði hér fyrr í kvöld varðandi umhverfismálin og gera því skóna að rætt hafi verið um umhverfismál hér í kvöld með einhverjum háðsglósum. Ætli Framsóknarflokkurinn sé ekki búinn að vera nokkrum tugum ára lengur en flokkur hæstv. ráðherra að fjalla um umhverfismál í sínum samþykktum, í sinni stefnuskrá? Framsóknarflokkurinn er mjög stoltur af því, hæstv. ráðherra, frú forseti, að hafa staðið að því að stofna umhverfisráðuneytið og Framsóknarflokkurinn mun standa vörð um það ráðuneyti eins hann hefur gert hingað til.

Ég hugsa að ég geti fullyrt að hæstv. ráðherra finnur ekki í neinni samþykkt sem gerð hefur verið hjá Framsóknarflokknum texta þar sem ekki er rætt um umhverfismál. Við höfum hins vegar lagt áherslu á það alla tíð að það beri að vernda og það beri að nýta. Þar held ég að okkur greini töluvert á um hvaða áherslur eigi að viðhafa á þeim vettvangi.

Ég hafna þess vegna alfarið þeim aðdróttunum frá hæstv. ráðherra varðandi Framsóknarflokkinn og umhverfismál. Við erum stolt af því sem við höfum gert í þessum málum. Við erum líka stolt af því sem við höfum gert í atvinnumálum þjóðarinnar í þá áratugi sem við höfum verið hér, Framsóknarflokkurinn, við stjórn landsmálanna og í rauninni þann tíma sem flokkurinn hefur starfað.

Umhverfisráðuneytið líkt og önnur ráðuneyti hefur mikilvægu hlutverki að gegna, það er alveg rétt, en þau má ekki nota í einhverjum pólitískum tilgangi sem þóknast hugsanlega einhverri ákveðinni stefnu á hverjum tíma eða hugsanlega einstökum ráðherrum. Þá er ég ekkert að vísa endilega til hæstv. umhverfisráðherra heldur verða menn að fara mjög varlega með það vald sem þeir hafa á hverjum tíma.