140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

sókn í atvinnumálum.

10. mál
[17:33]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir ágætt innlegg. Það er greinilegt að ég sit ekki nógu mikið í þingsal að fylgjast með þó að ég sé með þeim þaulsætnari, en þetta fór fram hjá mér og ég verð að biðja flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu afsökunar á því að hafa ekki kynnt mér þau mál nægilega vel. Ég hafði reyndar lesið yfir hana en mér hafði yfirsést að þeir ætluðu að skattleggja raunvexti, sem ég held að sé lausnin í dag. Marga vinstri menn dreymir um að skattleggja fjármagnstekjur — sem eru eitthvað ljótt — að fullu til að ná sér niður á fjármagnseigendum, sem eru heimilin. Búið er að hækka þann skatt úr 10% sem var á sínum tíma ákveðinn vegna þess að stór hluti af fjármagnstekjum er ekki tekjur heldur verðbætur og tap og annað slíkt, þannig að þegar búið er að hækka prósentuna upp í 20% og farið að nálgast tekjuskattinn finnst mér að menn eigi að taka skrefið til fulls og skattleggja raunvexti og hagnað af sölu hlutabréfa og af arði og öllu slíku, en að frádregnu tapi á hlutabréfum. Ég held að það hefði glatt eitthvað af þeim 60 þúsund heimilum sem töpuðu hlutabréfum í hruninu, ef þau hefðu getað dregið það frá skatti.

Síðan kæmu vaxtagjöld að sjálfsögðu til frádráttar en þá raunvaxtagjöld. Mér finnst að fyrst menn eru búnir að nálgast tekjuskattinn í sessi eigi þeir að stíga skrefið til fulls. Ég get þá alveg stutt þá tillögu ef hún kæmi fram á ákveðnu formi og gleðst yfir því að þingflokkur framsóknarmanna hafi fundið þessa leið.