141. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2012.

störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil í framhaldi af þeim orðum sem hér hafa fallið um stöðu Ríkisendurskoðunar og fjárhags- og bókhaldskerfi ríkisins segja að ég er fyllilega sammála þeim sjónarmiðum sem komu fram hjá hv. þm. Magnúsi Orra Schram um þá meginþætti sem þetta mál snýst um. Ég vara mjög við því að menn geri það að höfuðefni í umræðunni að upplýsingunum hafi verið komið á framfæri við almenning. Þær áttu sannarlega erindi við þjóðina þótt vitaskuld þurfi Ríkisendurskoðun að hugleiða það í sínum innri ferli hvernig á því stendur að hlutir geti farið út með þessum hætti. Það er samt ekki aðalatriði þessa máls.

Ég vil líka segja að ég tek eftir því í máli hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar, bæði í Kastljósi og eins hér í dag, að hann reynir — ég verð að segja eins og ég skil það — að velta málinu yfir á núverandi stjórnvöld með því að vísa í orð í nefndaráliti fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd frá árinu 2009 eða 2010. Ég tel að það sé ekki ferð til fjár að gera það vegna þess að þetta mál á sér miklu lengri aðdraganda og snýst um grundvallarþætti, m.a. samskipti Alþingis og Ríkisendurskoðunar. Hér reynir auðvitað á Alþingi og ekki síst forseta og forsætisnefnd með hvaða hætti verður brugðist við gagnvart Ríkisendurskoðun.

Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að ljúka rannsókn á þessu máli en ég er ekki sannfærður um að það sé trúverðugt að hún haldi áfram í höndum Ríkisendurskoðunar. Ég vil þess vegna velta upp þeirri hugmynd að málið verði tekið úr höndum Ríkisendurskoðunar og sett til óháðra aðila til að ljúka rannsókn á því og skila skýrslu til Alþingis. Síðan þarf Alþingi að sjálfsögðu að velta fyrir sér hvort sá trúverðugleiki og trúnaður sem þarf að vera á milli Alþingis og Ríkisendurskoðunar sé enn til staðar.