141. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2012.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Ég vil gera að umtalsefni nýútkomna skýrslu KPMG um innanlandsflug á Íslandi. Mjög sláandi upplýsingar koma fram í skýrslunni sem rétt er að Alþingi taki til umfjöllunar, til að mynda það að fari flugvöllurinn úr Vatnsmýrinni til Keflavíkur yrði það neikvætt fyrir útflutningsfyrirtæki landsins sem starfa á landsbyggðinni. Það mundi hækka umtalsvert rekstrarkostnað margra fyrirtækja þar. Það yrði erfiðara að reka menntastofnanir, heilbrigðisstofnanir og annað á landsbyggðinni vegna þess að nánd flugvallarins við Reykjavík auðveldar þessum stofnunum að sækja fagmenn, hún auðveldar líka fólki að koma suður til rannsókna o.fl. Í ljós kom að 85% þeirra sem spurðir voru í könnun um málið mundu fljúga mun sjaldnar en þeir gera í dag fari flugvöllurinn af höfuðborgarsvæðinu til Keflavíkur.

Það sem er mest sláandi er þegar komið er inn á heilbrigðismál og sjúkraflug. Á síðasta ári voru um 500 sjúklingar fluttir með sjúkraflugi til Reykjavíkur, eða um 460 flug á ári. Haft er eftir lækni í skýrslunni að í nokkrum tilfellum hefði það kostað mannslíf ef Reykjavíkurflugvöllur hefði ekki verið þar sem hann er og ef flytja hefði þurft fólk með sjúkraflugi til Keflavíkur. Sá ágæti læknir endar mál sitt á þessum nótum: Þetta er ekki bara tölfræði heldur líka fólk.

Ég held að sé brýnt í þessu máli að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýrinni, Framsóknarflokkurinn hefur lagt það til og staðið mjög fast á því. Ég held að það sé mjög brýnt að Alþingi taki þetta mál til umfjöllunar og höggvi á hnútinn, að við tryggjum það sameiginlega að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni. Þetta er mál allra (Forseti hringir.) en ekki einstakra sveitarfélaga.