142. löggjafarþing — 11. fundur,  24. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[17:32]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Kannski hef ég hreinna hjarta en hv. þingmaður. Ég trúi á hið góða í mannskepnunni, sérstaklega í Framsókn.

Ég var satt að segja svo auðtrúa, herra forseti, að ég gekk að því sem vísu þegar við komum til þings að hér mundu þingmál bíða sem, ja, kannski leystu ekki vanda þeirra sem eiga um sárt að binda vegna stökkbreyttra lána en vörðuðu að minnsta kosti leiðina að því að létta ok þeirra. Ég varð hissa yfir því að það mál kom ekki fram. Ég varð hissa þegar ég sá þingsályktunartillöguna. Ég varð ekki hissa yfir því frumvarpi sem við erum að ræða hér. Ég átti von á að það mundi koma, en ekki sem fyrsta mál ríkisstjórnarinnar. Ég átti heldur ekki von á að hér kæmi fram nánast sem annað mál frumvarp um að lækka veiðigjald til stórútgerðarinnar um 10 milljarða á tveimur árum. En ég ætla ekki að fara frekar út í það.

Ég get út af fyrir sig tekið undir áhyggjur hv. þingmanns. Ég vænti þess hins vegar að hæstv. ríkisstjórn forgangsraði út frá stefnu sinni, við sjáum það þá þegar sumarþinginu slotar hverjar áherslurnar eru. Hingað til hefur hún heldur færst undan mínum vonum. Ég átti von á öðru. Ég skil alveg vanda hæstv. fjármálaráðherra sem væntanlega slær fast við sporum þegar hann horfir fram á frumvarp það sem hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hefur talað um, því svona í skjótri sviphendingu í hugarreikningi tel ég að það hljóti að leggja sig á 3,5 til 4,8 milljarða, fer eftir hversu langt er gengið í að standa við þau loforð.

Ég hef því út af fyrir sig fulla samúð með hæstv. fjármálaráðherra, og eins og hv. þm. Björn Valur Gíslason er ég staddur hér til þess að taka undir hornin með honum.