143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

um fundarstjórn.

[11:43]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka forseta fyrir að upplýsa það áðan, sem hann gat upplýst, að hæstv. forsætisráðherra sé erlendis en ég beið hér árangurslaust eftir forustumönnum Framsóknarflokksins til að svara spurningunni sem við blasir: Hvar er hæstv. forsætisráðherra?

Ég geng út frá því að hann sé ekki farinn í frí, heldur sé hann í einhverjum opinberum erindagjörðum á erlendum vettvangi. Ég tel alveg nauðsynlegt að það sé staðfest að svo sé og hvaða brýnu, opinberu erindagjörðir það eru sem valda því að alþingismenn þurfa að sæta því að hér sé hver óundirbúni fyrirspurnatíminn á fætur öðrum þar sem verkstjóri ríkisstjórnarinnar er ekki til svara.

Það var lögð á það rík áhersla í framhaldi af þeim óförum sem við fórum í gegnum að styrkja eftirlitshlutverk Alþingis. Það er algerlega óviðunandi að á hábjargræðistímanum líði fjölmargar vikur milli þess að alþingismenn hafi tækifæri til að eiga orðastað við hæstv. forsætisráðherra. Það er nauðsynlegt að fram komi á vettvangi þingsins hvar forsætisráðherra er og hvaða brýnu opinberu erindagjörðir valda því að hann er ekki hér til að svara þingmönnum um mikilvæg þjóðmál sem á okkur brenna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)