144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Margt er manna bölið. [Hlátur í þingsal.] Ég vil ræða áfram vegamál á Vestfjörðum. Það var ágætisumræða hér í gær um vegaframkvæmdir á Vestfjarðavegi 60, um Gufudalssveit. Ég hef ákveðnar áhyggjur af því hvernig þessi mál koma til með að þróast og vek athygli á ályktun frá stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga þar sem því er beint til stjórnvalda að ljúka án tafar frekari undirbúningi og ákvörðunartöku svo að hægt sé að hefja lagningu nýs láglendisvegar um Gufudalssveit, þ.e. Vestfjarðavegar 60, og að það sé algerlega óásættanlegt að tefja málið með því að kæra það til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Það kom fram í máli hæstv. ráðherra í gær að verið væri að skoða þrjár leiðir, þ.e. endurupptöku og þessa kæruleið og síðan sérlög um vegaframkvæmdir.

Ég tel að það sé óásættanlegt fyrir þetta svæði að fara með mál í þann farveg sem beinir því í kæruferli og lagaþrætur næstu árin. Þetta svæði má ekki búa við það að ekki verði fundin einhver önnur leið ef Teigsskógsleið er ófær vegna þess að það tæki mörg ár að fá niðurstöðu um hana. Menn eiga þá vitanlega að velja næstu kosti þótt þeir séu dýrari og skoða í fullri alvöru. Það verður að vera samfella í þessum málum. Þetta svæði er að byggjast upp atvinnulega og tíminn er peningar. Það verður að setja verðmiða á það hvað það kostar svæðið ef dráttur verður á að fá niðurstöðu í ákvörðun um vegarstæði á þessum slóðum — þá verður það mjög dýrt samfélaginu. Við verðum (Forseti hringir.) að horfast í augu við það og fara aðra leið þótt hún kosti meira fjármagn. Þetta svæði á það inni hjá þjóðinni.