144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

bráðaaðgerðir í byggðamálum.

19. mál
[18:17]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir alveg hreint ágæta ræðu þar sem hann fór vítt og breitt yfir málin og út um víðan völl í ýmsum málum. En ég hjó eftir einu hjá þingmanninum. Hann talaði um að til að bæta þjónustu við börn á landsbyggðinni þyrfti að sameina fleiri sveitarfélög og stækka. Það hefur verið gert, en nú hafa menn hægt á sér í þeim efnum þar sem það hafa verið mikil átök og erfiðleikar í kringum það. Mig langar til að benda þingmanninum á að t.d. á Austurlandi, þar sem ég þekki ágætlega til, og víðar um land hafa sveitarfélög aukið samvinnu og unnið sameiginlega að málum, t.d. málefnum barna. Það er búið að stækka svæði barnaverndarnefnda sem hefur reynst ákaflega vel. Þá er vinnan ekki eins mikil í nærsamfélaginu og hún verður faglegri og sterkari.

Ég vil spyrja þingmanninn hvort hann styðji ekki þessa leið í stað þess að horfa sífellt á það að sameina fleiri sveitarfélög.