144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

bráðaaðgerðir í byggðamálum.

19. mál
[18:18]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég styð allt það sem til framfara horfir og þessi leið er alveg prýðileg og sérstaklega er hún góð þegar menn standa andspænis mikilli andstöðu við það að stækka sveitarfélög. En ég hef samt komist að þeirri niðurstöðu með sjálfum mér, án þess að ég hafi mikið verið að flíka henni eða flytja hér þingmál um það efni, að það skipti miklu máli að stækka sveitarfélögin verulega — verulega. Það eigi að gera þau miklu stærri en menn voru að velta fyrir sér þegar ég á sokkabandsárum mínum tók þátt í tilraun til að stækka sveitarfélög. Við náðum litlum árangri en þó þeim sem fólst í tilraunasveitarfélögum sem leiddi til margra merkilegra niðurstaðna, t.d. á sviði heilbrigðisþjónustu og ýmiss konar félagsþjónustu.

Ég dreg ekki í efa að reynslan sem hv. þm. Þórunn Egilsdóttir greinir hér frá er mjög til bóta og er jákvæð. Ég vildi fara hina leiðina og til að ganga algerlega fram af hv. þingmanni og félaga mínum í þingsal þá er ég þeirrar skoðunar að það ætti með lögum að fyrirskipa slíka stækkun sveitarfélaga. Ég er kominn á þá skoðun, ég var það ekki áður fyrri. Ég horfi til dæmis til menntamöguleika barna á landsbyggðinni. Ég tel einfaldlega að á sumum stöðum, sökum smæðar og kannski erfiðleika til samstarfs, njóti börn þar ekki jafnræðis á við t.d. mín börn. Ég tel að það sé ákaflega vont ef menn gera ekki allt sem þeir geta til að jafna möguleika borgaranna í upphafi og gefi þeim að minnsta kosti sama rásmark til að fara af stað úr inn í lífið.