145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Í lok þessarar viku skrifa þjóðarleiðtogar undir 17 ný þróunarmarkmið til 15 ára. Þessi markmið taka við af þúsaldarmarkmiðum og verða staðfest á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York. Þau þúsaldarmarkmið sem við horfðum á um síðustu aldamót hafa sannað að samstillt átak þjóða í baráttunni gegn fátækt og ójöfnuði skilar miklum árangri og breytir heiminum virkilega til hins betra. Þau markmið voru einungis átta talsins, en markmiðin sem við sjáum núna eru umfangsmeiri. Þau eru 17 og undirmarkmiðin eru 169 og taka í raun til miklu fleiri þátta en við höfum áður séð. Leiðtogar heims eru að reyna að ná saman og ná sameiginlegri sýn á það hvað er brýnast fyrir mannkynið inn í þessa krefjandi og nýju öld til að ná heimsfriði, til að ná kynjajafnrétti, til að útrýma ójöfnuði og annarri þeirri óáran sem við mannkyninu blasir.

Á þessum lista markmiða eru markmið um að eyða fátækt í heiminum, eyða hungri í heiminum, auka jafnrétti kynjanna, tryggja menntun fyrir alla, tryggja sjálfbæra orku, tryggja verndun jarðarinnar o.s.frv.

Ég tel, virðulegi forseti, að við þurfum að setjast yfir það með hvaða móti umræða um þessi markmið fari sem best fram í nefndum Alþingis og ætti til að mynda vel heima til viðbótar við utanríkismálanefnd í velferðarnefnd, atvinnuveganefnd, fjárlaganefnd og umhverfis- og samgöngunefnd. Þessi markmið þjóðarleiðtoga heims eiga að vera sameiginleg (Forseti hringir.) markmið okkar allra. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)


Efnisorð er vísa í ræðuna