145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[17:21]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er innilega sammála því sem ívitnaður gestur umhverfis- og samgöngunefndar sagði í morgun og ég mundi raunar vilja bæta um betur og biðja hv. þingmann að vera mér samferða í því að endurreisa ágæta þingsályktunartillögu sem var samþykkt 63:0 á síðasta kjörtímabili, um græna hagkerfið þar sem allir þingmenn allra flokka voru sammála um tiltekin og skilgreind verkefni í þágu grænnar uppbyggingar á Íslandi. Þetta verkefni er núna nánast að engu orðið, það er nánast búið að gera það að engu. Því var fyrst breytt og það sett í mjög djúpa skúffu í forsætisráðuneytinu en síðan hefur það verið rýrt niður í lítið sem ekki neitt miðað við það sem til stóð þannig að ég fagna því að hv. þingmaður tekur þetta upp.

Mér finnst það mjög mikilvægur punktur sem hv. þingmaður tekur hér upp að sá vöxtur sem er fram undan inn í 21. öldina verður að vera grænn. Hann má nefnilega ekki vera ágengur. Hann verður að vera sjálfbær. Og til þess að hann sé sjálfbær þarf hann að taka tillit til náttúru og umhverfis. Það er það sem ég á við þegar ég tala um að náttúruverndarlög þurfi að reisa skorður. Þá tala ég ekki um að tryggja þurfi með einhverju móti að mennirnir geri ekki neitt, heldur að það sem gert er sé gert af virðingu við náttúruna og það sé gert þannig að við tryggjum að við göngum ekki hraðar á hana en hún getur síðan byggt sig upp aftur og gefið áfram til komandi kynslóða.

Við höfum séð það að ef þessar skorður eru ekki reistar þá er tilhneigingin sú að fyrirtæki og aðrir slíkir aðilar vaxi og geti gert það stundum á kostnað þessara hagsmuna.