149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

dagur nýrra kjósenda.

27. mál
[19:28]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Þetta er flott verkefni. Það hefur verið talað svolítið um Skólaþing hérna þar sem grunnskólanemum er boðið að koma í salinn undir nefndasviðinu í byggingunni hérna hinum megin við Austurvöllinn. Þar eru notaðir gömlu stólarnir sem voru í þingsalnum og búið að setja upp gerviþingsal og gervinefndaherbergi og þingflokksherbergi og svo er farið í hlutverkaleik þar sem einhver mál eru á dagskrá og menn fá í alvörunni að fara í gegnum þau. Þetta er mjög áhugavert og ég hvet alla til að prófa þetta.

Ég ræddi við þá sem sjá um þetta hérna hjá Alþingi og mér er heimilt að nota þetta. Ég get notað þetta sjálfur. Ég hef lengi hugsað um hvernig maður ætti að setja þetta upp, hvort maður ætti að fara í þann farveg sem þarna er verið með, kannski drífur maður sig bara og gerir það fyrst, til þess að leyfa fólki að taka þátt. Það er svo mikilvægt að fólk skilji hvernig starfið virkar hérna innan dyra.

Málið gengur til þeirrar nefndar sem ég er í, stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, og ég verð þar af leiðandi einn af þeim sem vinna málið í nefndinni. Eins og ég nefndi við hv. þm. Andrés Inga Jónsson, flutningsmann málsins, í hliðarherbergi er eitt sem ég hnýt aðeins um sem væri hægt að skoða betur í nefndinni. Hér stendur: „Alþingi ályktar að fela forseta Alþingis að opna dyr Alþingis …“ og það er frábært, að bjóða fólki einmitt að koma hingað inn, bjóða það velkomið og leyfa því svolítið að finna að hérna gerast hlutirnir og það geti tekið þátt. Ég tala nú ekki um, eins og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson nefnir, ef það gæti komið í ræðustól á þingfundi eins og núna er ljóst að er heimilt samkvæmt forseta Alþingis. Almenningur gæti fengið að gera það, það stangast ekki á við stjórnarskrá. Það er heimilt.

En það er annað atriði sem er líka falið forseta Alþingis í þessari tillögu og það er að skipuleggja dagskrá þar sem boðið er upp á fræðslu um lýðræðislega þátttöku. Ég veit ekki alveg hvort ég myndi treysta öllum þeim forsetum sem ég hef setið undir í þau ár sem ég er búinn að vera hér, það eru náttúrlega tíð skipti, mörg kjörtímabil, til að fara endilega vel með þessa heimild, að það séu þeir sem eigi að fræða þessa nýju kjósendur um lýðræðislegu þátttöku. Í greinargerðinni kemur aftur á móti fram og hv. þingmaður og flutningsmaður, Andrés Ingi Jónsson, nefndi alls konar hópa sem gætu komið að þessu verkefni, þá sem sjá um #ÉgKýs o.s.frv.

Ég vildi frekar að orðalagið í ályktuninni sem hægt er að breyta í nefndinni væri skýrt, að þetta væri ekki eitthvað sem forsetinn gæti tekið svolítið yfir og ráðið sjálfur. Fyrirkomulagið verður að vera þannig að það sé mjög lýðræðislegt og ekki hægt að misnota það. Að öðru leyti er ég mjög hrifinn af þessari hugmynd og mun tala fyrir henni í nefndinni þannig að hún fái gott brautargengi. Þetta er svo mikilvægt, fólk veit ekki hvernig málin virka raunverulega á þingi. Hvaða heimildir hafa t.d. þingmenn? Það er mjög mikill misskilningur um það hvaða heimildir eru til staðar. Annars vegar heldur fólk að við höfum ofboðslega miklar heimildir, t.d. þingmenn í minni hluta o.s.frv., eða mjög litlar. Við höfum ekkert rosalega miklar heimildir, sér í lagi ekki það að hafa frumkvæði að okkar málum, koma þeim áfram o.s.frv.

En við höfum aðrar heimildir, vanræktar, sem fólk áttar sig ekki á að við höfum og kallar þar af leiðandi ekki eftir að við notum, sem eru eftirlitsheimildir okkar, heimildir til að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Ef fólk hefur áhuga getur það farið á Facebook-síðuna mína og þar undir myndum eru albúm og eitt heitir Þingspilið — það sem enginn sagði þér. Ástæðan fyrir því að ég fór af stað með þetta er að CIA, leyniþjónusta Bandaríkjanna, bjó til spil fyrir sitt starfsfólk til að læra taktíkina í njósnastarfinu. Ég er búinn að vera að leika mér að því að gera það sama fyrir þingstörfin.

Fyrstu fjögur spilin í þessu spili eru áhugaverð. Þar kemur fram að fastanefndir Alþingis eru átta, þær taka yfir öll málefnasvið samfélagsins. Það eru níu nefndarmenn í hverri nefnd og það þarf ekki nema þrjá í hverri nefnd, þ.e. 1/3, sem geta kallað eftir því að mál, hvaða mál sem er sem heyrir undir málefnasvið nefndarinnar, sé rætt í nefndinni. Það þarf ekki nema þrjá af þessum aðilum til að kalla eftir því að ráðherra og hver sem er mæti á fund til þess að upplýsa nefndina um það tiltekna málefni. Ef það er eitthvert mikilvægt málefni í samfélaginu sem er ekki verið að sinna og það er rík krafa um að það sé betur upplýst, haft betra eftirlit og er eitthvað sem er á valdsviði stjórnvalda og þar af leiðandi kemur eftirlitshlutverk þingsins til skjalanna, geta þrír af níu nefndarmönnum kallað eftir fundi í nefndinni og það skal verða fundur í nefndinni, ráðherra og hver sem er mæti fyrir fundinn og upplýsi málið — það þarf náttúrlega að vera rökstutt og málefnalegt að málið sé af slíku tagi — og fundurinn sé opinn og honum þar af leiðandi vefvarpað og hann tekinn upp þannig að landsmenn geti séð hann og ef menn missa af honum geta þeir horft á hann síðar. Og fyrst málið er komið til umræðu í nefndinni er hægt að kalla eftir öllum gögnum frá stjórnvöldum sem málið varða. Eftirlitshlutverk þingsins er gríðarlega ríkt og þessu var komið á fót í stjórnartíð Vinstri grænna og Samfylkingarinnar þegar lögum um þingsköp var breytt. Þá var eftirlitshlutverk þingsins verulega eflt og margar af þessum heimildum komu inn þá.

Þetta spil er nokkuð sem ég er byrjaður að setja upp og menn geta kíkt á það og svo getum við kannski farið að spila þetta saman í þinginu. Það eru margar aðrar heimildir þarna sem við getum leikið okkur með að nota saman. Landsmenn geta þar af leiðandi farið að sjá þetta skýrt fyrir sér líka. Ég styð þetta mál heils hugar að því gefnu að það sé alveg skýrt að forseti geti ekki misnotað heimild sína og stillt þessu upp eins og segir í textanum, að hann skipuleggi dagskrá þar sem boðið er upp á fræðslu með lýðræðislegri þátttöku. Við skulum hafa það meira á höndum og kannski meira á forræði þeirra aðila sem eru í samfélaginu, ungmennafélaga o.s.frv., og að það sé gert á faglegan hátt.