150. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2019.

framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum 2020--2023.

102. mál
[11:29]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður nefnir fæðingarorlofskerfið okkar. Samhliða lengingunni á fæðingarorlofinu úr níu mánuðum í 12 hefur hæstv. félags- og barnamálaráðherra boðað heildarendurskoðun á fæðingarorlofskerfinu, þar með talið fæðingarstyrkjunum sem hv. þingmaður vísaði til. Vissulega miðast fæðingarorlofið við þá sem hafa verið á vinnumarkaði í tiltekinn tíma og síðan eru aðrar reglur sem gilda til að mynda um námsmenn eða þá sem eru heimavinnandi. Hér er hins vegar mikilvægt að þingið taki upplýsta umræðu því að sjálf hef ég átt slíka umræðu í þessum sal þar sem er ekki alveg auðvelt að finna rétta svarið. Íslenska fæðingarorlofskerfið hefur svo sannarlega stuðlað að kynjajafnrétti á Íslandi með þeirri uppbyggingu að nýti annað foreldrið ekki fæðingarorlofsréttinn falli hann niður. Feður geta ekki framselt fæðingarorlofsrétt sinn til mæðra eða öfugt. Þetta var m.a. túlkað í alþjóðlegri umræðu sem svo að við hefðum á sínum tíma skert réttindi mæðra, sem við vorum vissulega að gera, þ.e. að stytta tímann sem var eyrnamerktur mæðrum, en sá réttur færðist yfir til feðra. Hins vegar vekur þetta upp spurningar, t.d. þegar um einstætt foreldri er að ræða og hinu foreldrinu er ekki til að dreifa þó að það sé enn á lífi. Það er vandasamt mál sem við höfum rætt áður á vettvangi þingsins og þarna geta stangast á okkar skýru markmið um kynjajafnrétti sem felast í íslenska fæðingarorlofskerfinu og hefur skilað ótrúlegum árangri og síðan réttindi barns og fjöldi þeirra mánaða sem barn fær með foreldri. Það er væntanlega mál sem verður tekið á í heildarendurskoðun fæðingarorlofslaganna (Forseti hringir.) en ég minni þó á að þau markmið sem sett voru upphaflega með því kerfi sem við höfum byggt upp voru kynjajafnrétti og þau hafa skilað mælanlegum árangri.