150. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2019.

framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum 2020--2023.

102. mál
[12:17]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og tek heils hugar undir það sem hann sagði. Hann nefndi meðgöngueitrun en jafnframt hefur verið mikil umræða um hormónagetnaðarvarnir og hugsanleg langtímaáhrif þeirra. Það segir sig sjálft að kynin eru ólík og þá aðstæður þeirra og þess vegna hlýtur að þurfa að horfa með aðeins ólíkum hætti á þá viðkvæmu þjónustu sem heilbrigðisþjónustan er. Það er samt sem áður algjörlega sláandi staðreynd að konum virðist ekki hafa verið sinnt jafn vel í heilbrigðiskerfinu og körlum. Ég er ekki endilega að tala um Ísland, ég veit ekki hvort við eigum einhverjar mælingar hér, en það er sláandi þegar maður sér tölur víða erlendis frá, t.d. að þegar kallað er eftir sjúkrabíl til að komast inn á bráðamóttöku taki það oft lengri tíma fyrir konur. Þetta er í löndum sem eru ekki á sama stað og við í jafnréttismálum en þarna eru vísbendingar og við eigum að sjálfsögðu að horfa til þeirra. Rétt eins og hv. þingmaður kom inn á eru lífsskeiðin ólík og ákveðnir þættir sem við eigum að horfa sérstaklega til, eins og t.d. með unga karlmenn. Við erum líka að því en á sama tíma horfum við upp á að miðaldra konur fara í auknum mæli á örorku eða glíma við sjúkdóma sem sumir vilja meina að séu lífsstílstengdir eða tengdir of miklu álagi eða öðru og við þurfum greinilega að rannsaka það betur og geta brugðist við.