151. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2020.

skipalög.

208. mál
[16:22]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Ég mæli hér fyrir frumvarpi til skipalaga. Með frumvarpi þessu er gerð tillaga að nýjum heildarlögum sem gilda um skip. Er þetta gert til að einfalda lagaumhverfi skipa og koma ákvæðum um þau í ein lög. Í lagasafninu er að finna marga lagabálka sem varða þetta efni með einum eða öðrum hætti og eru margir þeirra komnir til ára sinna. Borið hefur á gagnrýni á því hversu flókið og óaðgengilegt regluverk þetta er, einkum hvað varðar öryggiskröfur til skipa og eftirlit með þeim. Verði frumvarp þetta að lögum mun það koma í stað laga nr. 31/1925, um einkenning fiskiskipa, laga nr. 115/1985, um skráningu skipa, laga nr. 146/2002, um skipamælingar, og laga nr. 47/2003, um eftirlit með skipum.

Auk þess eru í gildi ýmis sértæk lög sem lagt er til að verði felld úr gildi. Þetta eru lög nr. 4/1997, um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að leyfa hf. Olíumöl innflutning á olíupramma; lög nr. 27/1989, um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að leyfa Köfunarstöðinni hf., Dýpkunarfélaginu hf., Slysavarnafélagi Íslands og Íslenska úthafsútgerðarfélaginu hf. innflutning á skipum; lög nr. 23/1993, um heimild fyrir ríkisstjórnina til að leyfa Slysavarnafélagi Íslands að flytja inn björgunarbát, og lög nr. 24/1993, um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að leyfa Sveinbirni Runólfssyni sf. innflutning á gröfupramma.

Markmið frumvarpsins er að tryggja öryggi íslenskra skipa, áhafna þeirra og farþega, efla varnir gegn mengun frá skipum og tryggja skilvirka skráningu, merkingu, mælingu og eftirlit með skipum. Frumvarpi þessu er einnig ætlað að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar sem íslenska ríkið hefur undirgengist. Víðtækt alþjóðlegt regluverk er í gildi um málefni skipa. Er íslenska ríkið þátttakandi í samningum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar og Alþjóðavinnumálstofnunarinnar auk þess sem það er skuldbundið til að fara eftir ákvæðum gerða sem teknar hafa verið upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Þá tekur Ísland þátt í vinnu Siglingaöryggisstofnunar Evrópu.

Með frumvarpi þessu eru ekki lagðar til umfangsmiklar breytingar á þeim efnislegu reglum sem í dag gilda um skip. Tiltekin ákvæði gildandi laga eru ekki tekin upp í frumvarpið og er ætlunin að færa þau í stjórnvaldsfyrirmæli. Er þar einkum átt við upptalningu á skilyrðum og upplýsingum sem ber að veita við umsóknir. Er lagt til að mælt verði fyrir um meginreglur í lögum en að ítarlegri ákvæði og skilyrði verði að finna í stjórnvaldsfyrirmælum. Með þessu móti verða skilyrði aðgengilegri fyrir notendur laganna sem þurfa þá ekki að leita bæði í lög og reglugerðir til að finna þessi skilyrði. Fyrirkomulagið gerir að auki stjórnsýsluframkvæmd einfaldari, t.d. þegar gera þarf breytingar á tilteknum atriðum vegna skuldbindinga Íslands samkvæmt alþjóðasamningum, þar með talið samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Á grundvelli gildandi laga er að finna fjölmargar reglugerðir sem útfæra nánar kröfur sem gerðar eru um skip. Innan samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis og Samgöngustofu er unnið að því að einfalda og uppfæra þetta víðtæka regluverk í heild þannig að það sé aðgengilegra fyrir þá sem starfa eftir þessum reglum. Er frumvarp þetta liður í því verkefni.

Frumvarpið skiptist í sex kafla. Í I. kafla frumvarpsins er að finna ákvæði um markmið laganna, gildissvið þeirra og orðskýringar. Frumvarpið gildir um öll íslensk skip, þ.e. skip sem eru skráð hér á landi og hafa rétt til að sigla undir íslenskum fána. Þá gilda þau jafnframt um erlend skip sem eru stödd innan efnahagslögsögu eða á landgrunni Íslands, nema alþjóðalög mæli fyrir um annað.

Í II: kafla frumvarpsins er mælt fyrir um skráningu skipa. Er þar að finna ákvæði um skyldu til skráningar, þurrleiguskráningu, réttinn til að sigla undir íslenskum fána, þjóðernis- og skrásetningarskírteini, breytingu á skráningu í kjölfar eigendaskipta eða breytinga á heiti eða heimilisfangi skipa. Loks eru að finna ákvæði um afskráningu skipa og um leiðarbréf.

Í III. kafla er að finna ákvæði um merkingu og mælingu skipa. Mikilvægt er að skip séu merkt með skýrum hætti og kveður frumvarpið á um að bannað sé að leyna merkingu eða nema brott. Þá megi ekki merkja skip öðru heiti en það er skráð undir. Gert er ráð fyrir að ráðherra mæli fyrir um merkingar í reglugerð. Um mælingu skipa er farið að miklu leyti eftir reglum sem gilda á alþjóðavísu um þessi efni. Í frumvarpinu er vísað til þessara alþjóðalaga og mælt fyrir um útgáfu mælibréfa fyrir skip og tilkynningu um smíði skipa og um breytingu á skipi.

Í IV. kafla er að finna ákvæði um eftirlit með skipum. Það er að finna ákvæði um smíði skipa, búnað þeirra o.fl., um aðbúnað og vinnuskilyrði, eftirlit með nýsmíði skipa og breytingum á þeim, innflutning skipa, ábyrgð á haffærni skipa og að skoðanir fari fram, skoðanir skipa, framkvæmd eftirlits, hafnarríkiseftirlit, haffærisskírteini, farþegaflutninga í atvinnuskyni, gömul skip og upplýsingaskyldu þegar aðilar hafa vitneskju um brot á reglum.

Í V. kafla er að finna ákvæði um farbann. Þar er um að ræða heimild Samgöngustofu til að leggja farbann á skip. Er þetta gert þegar leggja á skipi úr höfn án þess að það hafi haffærisskírteini eða önnur gild skírteini. Þetta skal líka gert ef starfsmenn Samgöngustofu eru hindraðir í störfum sínum við framkvæmd eftirlits.

Í VI. kafla eru ákvæði um gjöld og viðurlög. Í kaflanum er að finna heimild fyrir Samgöngustofu til að innheimta þjónustugjöld við eftirlit. Þá er að finna ákvæði um stjórnvaldssektir, refsingar, kæru til lögreglu og rétt einstaklinga til að fella ekki á sig sök. Í gildandi lögum er ekki að finna ákvæði um stjórnvaldssektir. Gera þau fyrst og fremst ráð fyrir því að brot gegn lögunum séu kærð til lögreglu til rannsóknar. Með frumvarpi þessu er lagt til að Samgöngustofa fái heimild til að leggja á sektir af þessu tagi. Það er talið almennt skilvirkara úrræði að stjórnvöld beiti stjórnvaldsviðurlögum en að þau beri mál undir dómstóla. Þau stjórnvöld sem fara með eftirlit á ákveðnu sviði eru oft í lykilaðstöðu við að meta hvar þurfi að bregðast við á skilvirkan hátt til þess að halda uppi lögum.

Loks er að finna ákvæði um gildistöku. Verði frumvarp þetta að lögum er lagt til að lögin taki gildi 1. júlí 2021. Er það gert til að stjórnvöld hafi tíma til að gera nauðsynlegar breytingar á reglugerðum og öðrum stjórnvaldsfyrirmælum áður en lögin öðlast gildi.

Í frumvarpi þessu er ekki að finna ákvæði um skipagjald, sem er nú að finna í 28. gr. laga um eftirlit með skipum. Hér er um að ræða ákvæði sem leggur skatt á eigendur skipa og er talið rétt að færa það í önnur lög sem eiga betur við, t.d. í lög um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991. Er unnið að slíkri breytingu innan fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Ekki er gert ráð fyrir að samþykkt frumvarpsins hafi kostnaðarauka fyrir ríkissjóð í för með sér. Þá er ekki talið að frumvarpið hafi áhrif á atvinnulífið þar sem frumvarp hefur ekki að geyma nýjar kröfur til einstaklinga eða fyrirtækja.

Frú forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu efnisatriðum þessa frumvarps og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umr.