151. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2020.

fjarskipti.

209. mál
[16:42]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir ágætisspurningar og vangaveltur. Það er rétt, sem þingmaðurinn segir, að þetta er mikið að vöxtum, frumvarpið er heil bók með greinargerð og skýringum. Ákvæðið sem hv. þingmaður spyr út í er í raun og veru ákvæði 87. gr. frumvarpsins. Í máli mínu kom fram að það eru þrjú ráðuneyti sem koma að samningu þess auk samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, þ.e. dómsmála-, utanríkis- og forsætisráðuneyti. Sérfræðingar þessara ráðuneyta starfa nú í raun með sérfræðingum Póst- og fjarskiptastofnunar að þessu mati, hvar hugsanlegir veikleikar eða áskoranir eru þar sem menn þurfa að velta vöngum yfir og gera sérstakar kröfur til búnaðar tiltekinna hluta í kerfinu öllu, það þarf að vera frá aðilum sem við störfum í varnar- og öryggissamstarfi við. Og einnig hitt að tryggja með hvaða hætti við getum tryggt að búnaður verði ekki fyrst og fremst frá einum aðila því að það er kannski stærsta ógnin í öllu, að verða svo háður einum framleiðanda að allt kerfið sé háð einu stórfyrirtæki. Ég held að sérfræðingar Póst- og fjarskiptastofnunar séu fremstir meðal jafningja í að meta þann þátt í það minnsta.