151. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2020.

fjarskipti.

209. mál
[16:44]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og er honum vel sammála. Eflaust eru sérfræðingar Póst- og fjarskiptastofnunar tæknilega séð hershöfðingjarnir í þessu máli. En ég spyr engu að síður — af því að ég var að nefna þjóðaröryggisráð, ég veit að búið er að víkka út, ef ég má orða það þannig, starfssvið þess ráðs, öryggismál eru orðin miklu meira en bara það sem við höfum venjulega tengt því, sem tengist vörnum og hernaði og öðru slíku — hvort það væri ekki eitthvert hlutverk þjóðaröryggisráðs sem tengdist þessu netöryggi í fjarskiptalögunum. Ég gæti alveg séð fyrir mér það hlutverk. Þar koma aðeins fleiri við sögu en fulltrúar ráðuneyta Póst- og fjarskiptastofnunar. En þetta er atriði sem við eigum eftir að fjalla um í nefndinni. Við gerum það auðvitað, en mig langar að fá skoðanir ráðherra á þessu.