152. löggjafarþing — 11. fundur,  15. des. 2021.

störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Fyrir sléttum tveimur árum fékk ég samþykkta þingsályktunartillögu mína um að fela heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir fræðslu til almennings um vefjagigt og láta fara fram endurskoðun á skipan sérhæfðrar endurhæfingarþjónustu sjúklinga. Vefjagigt er langvinnur sjúkdómur sem samanstendur af fjölmörgum einkennum. Um 90% þeirra sem greinast með sjúkdóminn eru konur. Það hefur reynst erfið og löng ganga að fá heilbrigðisyfirvöld til að beina athygli að meðferð og fræðslu um sjúkdóma sem hrjá konur og konur þjást oft meiri hluta ævi sinnar af ógreindum sjúkdómum.

Einn sá sjúkdómur sem hrjáir konur og hefur fengið litla athygli er endómetríósa sem er krónískur fjölkjarnasjúkdómur sem getur verið afar sársaukafullur. Sjúkdómurinn er gjarnan kallaður endó í daglegu tali en einnig var notast við hugtakið legslímuflakk. Á 20 ára tímabili greindust um 1.400 konur með sjúkdóminn á Íslandi. Má því reikna með að á hverjum tíma eigi hundruð ef ekki þúsundir kvenna í vanda vegna sjúkdómsins hér á landi en hjá mörgum þeirra greinist sjúkdómurinn seint og ekki fyrr en óafturkræfar vefjaskemmdir hafa orðið. Þegar konur hafa greinst hafa þær oftast gengið í gegnum erfitt greiningarferli, en skortur er á almennri fræðslu auk þess sem þær hafa mætt höfnun þegar þær leita til heilbrigðiskerfisins. Í gegnum tíðina hafa verið uppi ranghugmyndir um sjúkdóminn og upplýsingagjöf villandi, enda ekki auðvelt að útskýra sjúkdómsmyndina. Það hefur leitt til þess að minna er gert úr honum en ella. Ein ranghugmyndin er að verkir séu eðlilegur hluti af lífi konunnar eða tíðaverkir séu fyrst og fremst sálrænir.

Virðulegi forseti. Ég hef því ákveðið að leggja fram þingsályktunartillögu um að fela heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir og efla fræðslu meðal almennings og starfsfólks heilbrigðisstofnana auk þess að efla þjónustu við þá sem bera þennan sjúkdóm. Konur eiga það skilið.