152. löggjafarþing — 11. fundur,  15. des. 2021.

störf þingsins.

[15:25]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Í útvarpsþættinum Lestinni á Rás eitt á mánudaginn síðasta vorum við minnt á það þegar fjöldi fjölskyldna af þýskum gyðingaættum og annarra pólitískra flóttamanna reyndi að leita skjóls á Íslandi fyrir ofsóknum nasista við upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar. Það voru fjölskyldur sem vildu leita hér skjóls, setjast hér að og miðla þekkingu sinni og verkkunnáttu. Þessum umsóknum var nær öllum hafnað af íslensku ríkisstjórninni. Þetta sýna yfir 2.000 skjöl frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu frá árunum 1935–1941. Átakanlegar umsóknir frá örvæntingarfullu fólki í sárri neyð. Reyndar fór það svo að flestir þessara umsækjenda létu lífið í útrýmingarbúðum nasista. Þetta er svartur kafli í sögu innflytjendamála á Íslandi sem við þurfum að horfast í augu við.

Nú kann einhver að segja að þetta sé liðin tíð. Nú sé öldin önnur og að Ísland sé í fararbroddi í mannúðarmálum í heiminum. En það er ekki alveg þannig. Þessi saga er að endurtaka sig þó með ólíkum hætti sé. Árlega vísum við fjölda hælisleitenda úr landi. Þar í hópi eru margir sem sætt hafa ofsóknum og ógn í heimalandi sínu en við kjósum að senda þau út í óvissu og ógn sem við viljum helst ekki viðurkenna eða horfast í augu við. Við vitum ekkert hver örlög þeirra verða eða hafa orðið en rétt eins og fyrr, á sama hátt og við berum ábyrgð á örlögum gyðingafjölskyldnanna fyrr á árum, þá berum við ábyrgð á örlögum þeirra hælisleitenda sem við sendum út í óvissu og hættulegar aðstæður. Hér verðum við að gera betur. Við verðum að sýna mannúð og samhug í verki og hjálpa barnafjölskyldum og fólki í neyð til að finna friðarhöfn og framtíð í öruggu landi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)