152. löggjafarþing — 11. fundur,  15. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[20:57]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að segja, af því að ég get eiginlega ekki á mér setið, að þegar ég les þessa tillögu til þingsályktunar þá les ég að Alþingi álykti að styðja fyrirhugaða breytingu á fjölda og heitum ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Síðan eru talin upp fimm ráðuneyti og sagt að svo komi sjö ráðuneyti. Eitt af þessum ráðuneytum sem á að koma heitir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti. Þegar ég skoða forsetaúrskurðina frá 28. nóvember síðastliðnum þá les ég í forsetaúrskurði um skiptingu starfa ráðherra, sem er væntanlega sama ráðuneytið og háskóla-, iðnaðar og nýsköpunar, að þar stendur vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Ráðherrann á að heita annað en ráðuneytið. Þannig að það á að vera með háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti en ráðherrann er vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Ég man svo vel að ráðherra talaði um skammstöfunina VIN.

Ég efast bara um að þetta skjal sé tækt til þinglegrar meðferðar, ég ætla bara segja alveg eins og er. Við erum að tala um æðstu stofnanir ríkisins, lýðveldisins, og það er misræmi. Það er verið að biðja Alþingi Íslendinga um að styðja fyrirhugaða breytingu á fjölda og heitum ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, sem stangast á við forsetaúrskurð frá 28. nóvember. Sem þingmaður get ég ekki samþykkt þessa tillögu. Ég get ekki tekið afstöðu til þessa vegna þess að þetta stangast á við forsetaúrskurðinn frá 28. nóvember hvað heitin varðar. Ég vil bara að það komi fram. Það væri mjög áhugavert að fá að vita eitthvað um það. Þar sem ég er nýliði á þingi þá er kannski hægt að redda þessu, það er nú þjóðareinkenni að redda hlutunum.

En svo ég snúi mér að málefninu að öðru leyti þá sé ég að 28. nóvember voru gefnir út tveir forsetaúrskurður; forsetaúrskurður um skiptingu starfa ráðherra, nr. 126, og forsetaúrskurður um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 125. Í þeim úrskurði eru 10 ráðuneyti með sín gömlu heiti. Það er óþarfi að telja þau upp hérna. En ef við skoðum forsetaúrskurð um skiptingu starfa ráðherra þar sem vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra er, þá eru komnir 12 ráðherrar, þ.e. þeir skipta 10 ráðuneytum milli 12 ráðherra. Þannig er það, þeir gera þetta þannig. Það er sem sagt allt í lagi að gera það, það er vísað til töluliðanna varðandi stjórnarmálefni í forsetaúrskurði nr. 126, um skiptingu starfa ráðherra.

Ég er í sjálfu sér mjög hlynntur því að ríkisstjórn hverju sinni geti skipulagt störf sín eins og hún telur henta. En ég tel að það sem hér er lagt fram standist engan veginn. Það er ekki minnst einu orði á grunneiningar allra ráðuneytanna, sem eru skrifstofurnar. Ég hélt alltaf að þetta yrði bara gert á grundvelli skrifstofanna, að skrifstofurnar yrðu færðar til undir ráðherrana. Nei, það er ekki gert, verið er að plokka stjórnarmálefnin úr skrifstofunum og þau sett undir ráðherrana, varðandi flutning starfa og annað slíkt. Þar er verið að krukka í grunneiningu Stjórnarráðsins, sem ég tel ekki hægt að gera á svo skömmum tíma. Ég tel það ekki ganga upp, en það er mín skoðun.

Þegar maður skoðar þetta nánar, fer ofan í þetta, t.d. í 15. gr. stjórnarskrár Íslands, þá segir þar:

„Forsetinn skipar ráðherra og veitir þeim lausn. Hann ákveður tölu þeirra og skiptir störfum með þeim.“

Það gerir hann í forsetaúrskurði. Það segir ekkert um það að Alþingi eigi að koma þessu, ekki neins staðar. Svo höfum við lög um Stjórnarráð Íslands, ég veit að það eru líka lög frá 1969 sem koma þar inn. Ég hef ekki kynnt mér danska stjórnskipun hvað það varðar en mig grunar að Danir gangi frá þessu algerlega með konungsúrskurði, því plaggi sem þeir gera. Af hverju á Alþingi að setja lög um Stjórnarráð Íslands þegar segir í lögunum að forseti ákveði tölu ráðherra og skipti með þeim störfum? Það gerir hann í forsetaúrskurðinum.

En svo fáum við þessa undarlegu tillögu þar sem er óskað eftir því að Alþingi álykti að styðja fyrirhugaða breytingu á fjölda og heitum ráðuneyta. Í fyrsta lagi eru heiti ráðuneytanna röng miðað við forsetaúrskurð. Ég tel það því ekki ganga upp. Í öðru lagi er líka búið að ákveða fjölda ráðherranna í forsetaúrskurði. Hvað erum við að gera? Ef við skoðum texta tillögunnar þá virðist þetta ekki ganga algerlega upp hvað það varðar.

Ég tel líka að innihaldið sé svolítið á sömu bókina lært. Ég veit að þetta eru gildandi lög. Við erum ekki að fara að breyta þeim núna, en ég tel það kannski vera innlegg inn í framtíðina að skoða lög um Stjórnarráð Íslands algerlega frá grunni og byggja á því sem stendur í stjórnarskránni um að forsetaúrskurður ákveði þetta, þ.e. að forseti ákveði tölu ráðuneyta og skipti með ráðherrum störfum.

Þetta plagg er mjög einfalt, það er bara fjöldi og heiti og eitt heitið rangt. Ef við förum síðan og skoðum innihald greinargerðar þingsályktunartillögunnar þá virðist þetta ekki vera eitt eða neitt. Þegar ég les þetta þá sé ég eitthvað um verkskipulagshlutverk forsætisráðherra í 2. kafla. Ég vek sérstaklega athygli á 2. kafla, um skipulag Stjórnarráðs Íslands. Þar segir í lok fyrstu málsgreinar, með leyfi forseta:

„Endurskipulagning og tilfærsla verkefna milli ráðuneyta Stjórnarráðsins getur þannig verið nauðsynlegur liður í því að mæta nýjum áskorunum og takast á við ný eða breytt verkefni í takt við þarfir hvers tíma.“

Svona heldur þetta áfram málsgrein eftir málsgrein:

„Kröfur um sveigjanleika og viðbragðsþrótt stjórnkerfisins hafa fengið síaukið vægi á umliðnum árum samhliða örum samfélagsbreytingum.“

Og hvað er síðan farið að gera? Jú það er farið að tala um bankahrunið. Já, við erum enn þá á árinu 2008, það eru rúm 13 ár frá því að bankahrunið átti sér stað. Svo segir:

„Þeir lærdómar sem brugðið er ljósi á í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis varða alla meginþætti í starfsemi og hlutverki framkvæmdarvaldsins.“

Þannig að við erum hér föst í hruninu, algjörlega. Og svo er það stjórnarsáttmálinn og það vantar eitt ráðuneyti fyrir Framsóknarflokkinn. Það eiga að vera þrjú, fjögur og fimm ráðuneyti. Þá förum við í hrunið. Fyrir mér er þetta, fyrirgefið, virðulegur forseti, alger grautur sem er orðinn hér til. Hér segir að það hafi verið ýtt undir þverfaglega nálgun og hvatt til aukins hreyfanleika o.s.frv. Og áfram er haldið og sagt að breytingum á Stjórnarráðinu sé ætlað að tryggja að það sé sem best í stakk búið til að takast á við krefjandi samfélagsverkefni. Svona er þetta áfram, eiginlega í hverri einustu málsgrein:

„Sú nálgun sem hér er kynnt til sögunnar er hins vegar í takt við þróun umræðu um þau mál þar sem kallað er eftir jafnvægi á milli nýtingar og verndar …“

Og svo kemur alveg óborganlega setning í lokin, með leyfi forseta:

„Eins og sjá má eru þessar breytingar á skipan ráðuneyta síðast en ekki síst til þess fallnar að fella ósýnilega múra stofnanamenningar og stuðla að samvinnu, samráði og samhæfingu innan Stjórnarráðsins.“

Hvað hefur fólk verið að gera í Stjórnarráðinu undanfarin ár? Ég var sjálfur starfsmaður í fjármálaráðuneytinu og það er mikil þekking í þessum ráðuneytum. En að fara að krukka í Stjórnarráðinu með þessum hætti sem hér er verið að gera og flytja starfsfólk milli starfa til að redda einum ráðherra Framsóknarflokksins sæti í ríkisstjórninni — það gengur bara engan veginn. Og svo forsætisráðuneytið. Jú, jú, þeir fá mannréttindamálin. Hver er á móti mannréttindum? Og fá líka samhæfinguna í loftslagsmálunum. Hver er á móti því? Það er verið að skreyta sig með fjöðrum í málaflokkum — loftslagsmálaráðherra er kominn, en hann á ekki að sjá um samhæfinguna. Það er forsætisráðherra sem á sjá um samhæfinguna. Ráðherrann sem er með málaflokkinn sér auðvitað um samhæfinguna. Það er þannig sem þetta er. Og svo má lengi áfram telja.

Ég sé að tími minn er á þrotum. Við getum séð hér að lokum ráðuneyti, sem er eiginlega mitt uppáhaldsráðuneyti í þessum kafla, þ.e. menningar- og viðskiptaráðuneyti. Þar er ferðamálunum troðið með samkeppnismálunum, ríkisaðstoð, neytendamálum, verslun og þjónustu, fjölmiðlum, safnamálum, listum, menningu, íslenskri tungu og fleira. Þegar maður les kaflann — jú, jú, menningarmál eru stór á Íslandi, og ferðaþjónustan er mikilvæg atvinnugrein, en það á að fara að tengja ferðamálin allt í einu við menningu. Menning er algerlega óskyld ferðamálum. Það þarf tengja ferðamálin við náttúru eða eitthvað, þau ættu að vera í umhverfisráðuneytinu.

En ég sé að tíminn er á þrotum. Ég tel að þetta mál sé ekki tækt til þinglegrar meðferðar vegna gallanna sem ég minntist á og að efnislega sé það ekki boðlegt fyrir Alþingi Íslendinga.