152. löggjafarþing — 11. fundur,  15. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[22:55]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Við þennan lestur þá veit maður ekki alveg hvort maður á að hlæja eða gráta af því að ég heyrði hæstv. forsætisráðherra tala um það áðan að það væri óskandi að peningarnir gætu farið í góða málaflokka. En orkan og fjármunirnir sem fara í svona — það er auðvitað eins og hv. þingmaður talaði um gott að greina hlutina og það er gott að hafa yfirsýn og það er gott að vanda sig og gera hlutina vel þannig að það sé alla vega einhver hugsun. Það er líka gott að vera skapandi, hafa ríkt hugmyndaflug eða blanda saman ólíkum þáttum og sjá hvað kemur út úr því. En maður hlýtur á þessum tímapunkti, ekki síst í miðjum heimsfaraldri þegar við þurfum að hugsa um fjármuni ríkisins, fjármuni almennings, að hugsa hvort það þurfi ekki að vanda betur til verks þegar farið er af stað í svona leiðangur. Þetta virkar svo ofboðslega fálmkennt. Þegar hæstv. forsætisráðherra var spurð að því hérna áðan hvenær hugmyndin hefði kviknað, hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir spurði hvenær þetta hefði verið, þá nefndi hún að formaður Framsóknarflokksins hefði nefnt þetta einhvern tímann í kosningabaráttunni og þau hefðu sjálf jafnvel verið að velta fyrir sér einhverju öðru. En ég held að þetta sé gert, eins og hv. þingmaður segir, á gulmiðafundi á ónefndu nesi. Það lítur alla vega þannig út, með fullri virðingu fyrir slíkum fundum og mikilvægi þeirra, að þetta hafi ekki verið sérstaklega ígrundað.