152. löggjafarþing — 11. fundur,  15. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[23:06]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Vegna þess að engin djúp greining, eða bara engin greining yfir höfuð, virðist hafa farið fram á því hvernig væri eðlilegast að skipta verkum milli ráðuneyta þá held ég að það sé bara hending að sumar tilfærslurnar eru skynsamlegar vegna þess að síðan eru aðrar það ekki. Þannig á þetta náttúrlega ekki að vera. Það á ekki að vera einhver slembilukka hvernig Stjórnarráðið fúnkerar.

Varðandi það sem þingmaðurinn sagði um vandræði þess að reka Stjórnarráðið sem samhentari einingu, hvort sem það er undir einni kennitölu eða ekki, að þar væru vandræði vegna þess að ríkisstjórnin væri ekki fjölskipað stjórnvald, þá held ég að það sé samt alveg hægt að ganga mjög mörg skref í áttina að því. Við eigum dæmi eins og af velferðarráðuneytinu með tveimur ráðherrum, eða atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, þar sem ráðherrar, hvor með sinn málaflokkinn, deila ráðuneyti. En það virðist vera að stjórnmálalegi þroskinn innan ríkisstjórnarinnar hafi kannski ekki endilega leyft þetta. Þess vegna leystust þau ráðuneyti upp. Þess vegna er núna verið að vinda ofan af þeirri þróun algerlega þannig að ráðherrar þurfi ekki lengur að deila kaffistofu, sem virðist hafa misheppnast í velferðarráðuneyti og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

Og þó að ráðuneytin séu hvert á sinni kennitölu þá er alveg hægt að gera ýmislegt sameiginlega eins og þau væru eitt og hið sama, eins og þetta væri bara eitt Stjórnarráð Íslands. Þar nefni ég jafnlaunavottunina, sem Alþingi gerði kröfu um að yrði gerð fyrir öll ráðuneytin sem heild, alveg meðvitað um hvernig stjórnarráðslögin eru — maður hefði haldið að þau sértæku lög sem við samþykktum um jafnlaunavottun (Forseti hringir.) gengju framar þeim lögum sem ríkisstjórnin skýldi sér síðan á bak við til að þurfa ekki að standa í þessu veseni.