152. löggjafarþing — 11. fundur,  15. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[23:22]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég hef bara ekki hugmynd um það, það er bara ekkert flóknara en það; ekki hugmynd. Við erum búnir að vera að kvarta allt síðasta kjörtímabil yfir því að það sé vandamál á húsnæðismarkaðnum, allt síðasta kjörtímabil. Ekkert gert, ekki neitt. Núna kemur fram í greinargerðinni að markmið opinberrar stefnu í húsnæðismálum sé að tryggja húsnæðisöryggi allra landsmanna. — Einmitt. Að markmiðið sé að tryggja hæfilegt framboð af hentugu húsnæði. Hvað gerði ríkisstjórnin í Covid-viðbrögðunum? Hún fór ekki að byggja húsnæði. Nei. Hún hjálpaði fólki að kaupa það húsnæði sem var þegar til, sem hækkaði verðið á öllu.

Af hverju ætti maður að trúa því að núna sé einhvern veginn verið að gera þetta rétt? Ég hef ekki hugmynd um það. Þau virtust ekki hafa rænu á því að gera þetta rétt síðast og samkvæmt allri reynslu býst maður ekki við því að það þýði að prófa sömu hlutina aftur og ætlast til þess að niðurstaðan sé önnur. Það er einhver skilgreining á geðveiki samkvæmt Albert Einstein eða einhverjum álíka, sem er náttúrlega rangt eftir haft, internetið lýgur að okkur öllum. En þetta er rosalega slæmt.