152. löggjafarþing — 11. fundur,  15. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[23:24]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirferð hans. Hv. þm. Guðbrandur Einarsson, sem veitti andsvar á undan mér, kom að hluta til inn á það sem ég ætlaði að spyrja um en ég vil gjarnan fá aðeins meira samtal um þetta. Ég gerði mér alveg grein fyrir því að það væri talsvert mikil lærdómskúrfa að setjast nýr á Alþingi. Vinna við fjárlög, fjárlagagerðin og vinnan í fjárlaganefnd og hér í þingsal og annað, auðvitað er margt flókið og nýtt fyrir manni. En nákvæmlega það sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson nefndi hér áðan:

„Gert er ráð fyrir að endanlegt mat á kostnaði vegna skipulagsbreytinganna komi fram við tillögugerð við 2. og eftir atvikum 3. umr. á Alþingi um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2022.“

Maður veltir svolítið fyrir sér: Í hvaða stöðu er maður sem þingmaður? Þetta er auðvitað eitt af því sem maður þarf að leggja mat á við vinnuna þegar er verið að afgreiða þessa hluti. Það hlýtur eiginlega að segja sig sjálft. Þess vegna langaði mig kannski aðeins að leita í reynslubanka hv. þingmanns. Er það oft þannig að þegar við erum að tala um stór mál — mér finnst þetta vera mjög stórt og mikilvægt mál, það hvernig við erum að breyta Stjórnarráðinu og mér finnst að vinnan við það þurfa að vera vönduð, eins og ég fór yfir í fyrri ræðu minni — er þetta dæmi um hluti sem menn sjá aftur og aftur, að hér gætum við kannski fengið einhver lykilatriði sem móta afstöðu okkar til svona stórs máls einhvern tímann í 2. umr. og eftir atvikum 3. umr.? Að þá liggi fyrir einhver kostnaður? Eru þetta bara venjubundin vinnubrögð hérna á Alþingi?